Icelandair Group flutti 3,1 milljón farþega á liðnu ári 2015. Þeir hafa aldrei verið fleiri. Einnig jókst sætanýting um 2,7 prósentustig. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins.

Í desember 2015 flutti flugfélagið 185 þúsund farþega í millilandaflugi, sem er aukning um 16% frá síðasta ári. Framboðsaukning milli áranna nam þá 15% og sætanýting jókst samtímis um hálft prósentustig.

Þá fækkaði farþegum í innanlandsflugi og Grænlandsflugi félagsins um 3% milli ára, en þeir voru 18 þúsund í desember. Þó skal tekið fram að framboð hafði verið dregið saman um 9%.

Seldir blokktímar í leiguflugi jukust um 10% milli ára, en fraktflutningar jukust um 7%. Herbergjanýting á hótelum félagsins jókst um 4,9 prósentustig.

Gengi bréfa Icelandair hækkaði ört í dag - um heil 3,44% á einum tímapunkti - en stilltist dálítið af undir lok, en við lokun markaðarins hafði gengi bréfanna hækkað um 2,06%. Viðskipti með bréf félagsins námu 2 milljörðum króna.