Fjármálaeftirlitið hefur tekið ákvörðun um að framlengja fresti sem gefnir höfðu verið vegna fjármögnunar Nýja Kaupþings og Íslandsbanka. Fjármögnun beggja þessara banka átti, samkvæmt ákvörðun frá 14. þ.m., að vera lokið í gær, föstudaginn 28. þ.m., en frestur er gefinn fram í næstu viku.

Fjármálaeftirlitið hefur með nýrri ákvörðun veitt frest til fjármögnunar Nýja Kaupþings banka hf. og til að gefa út fjármálagerning um uppgjör vegna ráðstöfunar eigna og skulda Kaupþings banka hf. og Nýja Kaupþings banka hf. til 2. september nk., þ.e. til miðvikudags í næstu viku.

Fjármálaeftirlitið hefur ennfremur veitt frest til fjármögnunar Íslandsbanka hf. og uppgjörs á milli Glitnis banka hf. og Íslandsbanka hf. til 4. september nk, þ.e. til föstudags í næstu viku.

Þetta er níunda breyting á ákvörðun FME frá 14. október 2008 vegna Glitnis og áttunda breyting á ákvörðun FME frá 21. október 2008 vegna Kaupþings.

Engin breyting á ákvörðun um Landsbanka

Ákvörðun vegna Landsbanka var ekki breytt, en hinn 14. þ.m. fékk hann frest til 18. september til útgáfu fjármálagernings og fjármögnunar nýja Landsbankans, NBI hf., og frest til 30. september til lokauppgjörs vegna ráðstöfunar eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til NBI hf.