Elín Arnar hefur tekið til starfa sem ritstjóri tímaritsins Vikunnar, segir í fréttatilkynningu. Töluverðar mannabreytingar hafa verið innan Fróða-tímaritasamstæðunnar síðan Mikael Torfason tók við sem ritstjóri samstæðunnar í júní.

"Markmið mitt er að halda því sem er nú þegar til staðar í blaðinu en Vikan hefur gefið af sér gott orð sem lífsstílsblað. Ég vil halda því en bæta við fréttum af konum og endurspegla það sem er að gerast í þjóðfélaginu út frá kvenlegu hliðinni. Það er von mín að okkur takist að hleypa röddum að sem hingað til hafa ekki átt greiðan aðgang að fjölmiðlum,? segir Elín.

Elín er kvikmyndagerðarmaður að mennt og hefur hún tekið að sér framkvæmdarstjórn í kvikmyndagerð auk annarra starfa tengdum fjölmiðlum. Einnig hefur Elín skrifað tvær útgefnar bækur. Hún hóf störf hjá Vikunni í byrjun árs 2006 og hefur dafnað afar vel í starfi.

Elín tekur við ritstjórn af Kristjáni Þorvaldssyni, sem hefur verið gestaritstjóri Vikunnar frá því í byrjun júlí. Kristján mun snúa sér að öðrum verkefnum fyrir Tímaritaútgáfuna Fróða.

Vikan er eitt af mest lesnu tímaritum landsins og hefur verið það frá því það kom fyrst út árið 1938, segir í fréttatilkynningunni.