*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Frjáls verslun 8. mars 2019 19:03

Fólk á uppleið VI

Frjáls verslun birtir lista yfir tæplega 60 Íslendinga, sem eru á uppleið í atvinnulífinu í nýju tímariti sem var að koma út.

Ritstjórn
vb.is

Í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út, er ljósi varpað á tæplega sextíu Íslendinga, sem hafa verið á uppleið í atvinnulífinu undanfarin misseri. Lögð er áhersla á yngra fólk og til marks um það er meðalaldurinn rétt rúmlega 37 ár. Á listanum eru 29 konur og 27 karlar. Í hópnum er fólk sem starfar í hinum ýmsu atvinnugreinum þjóðfélagsins eins og ferðaþjónustu, viðskiptalífi, verslun, byggingageiranum, sem og fólk sem hefur gert það gott í nýsköpun.

Frjáls verslun fékk valinkunnan hóp sérfræðinga til að tilnefna fólk á listann en þau eru: Andrés Jónsson, almannatengill og eigandi Góðra samskipta, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, ráðgjafi hjá Aton, Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður nýsköpunar í Arion banka og einn af upphafsmönnum Startup Reykjavík, Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill og einn eigenda KOM, Heiðar Guðjónsson fjárfestir, Katrín S. Óladóttir, annar eigenda Hagvangs og Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA ) .

Hér fyrir neðan má sjá brot af þeim einstaklingum sem eru á listanum.

Ingunn Agnes Kro (36)

  • Ingunn Agnes Kro er framkvæmdastjóri skrifstofu- og samskiptasviðs Skeljungs, sem og framkvæmdastjóri Íslenska vetnisfélagsins, dótturfélags Skeljungs. Ingunn Agnes hefur starfað hjá Skeljungi í tæp 10 ár. Þar áður starfaði hún hjá Landslögum og LOGOS. Hún situr í stjórn Iceland Seafood International og stjórn Íslenskra fjárfesta hf. Ingunn Agnes er með BA- og MA-próf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið lögfræðináskeiðum við Óslóarháskóla. Ingunn Agnes var stundakennari við Háskóla Íslands frá 2009 til 2015.

Ólafur Örn Nielsen (34)

  • Ólafur Örn Nielsen hefur starfað sem framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Kolibri frá árinu 2015, en hann hafði verið sölu- og markaðsstjóri fyrirtækisins frá árinu 2014. Þar áður hafði hann verið meðstofnandi og framkvæmdastjóri stafræna markaðsfyrirtækisins Form5 í um eitt ár og árið þar áður stafrænn markaðsstjóri hjá Wow air. Loks hafði Ólafur Örn starfað við viðskiptaþróun og hugbúnaðarvinnu hjá mbl. is á árabilinu 2006 til 2012, með tveggja ára hléi árin 2009 til 2010 þegar hann var hjá Eddu útgáfu sem framkvæmdastjóri netviðskipta. Ólafur lærði tölvunarfræði við HR og viðskiptafræði við HÍ.

María Björk Einarsdóttir (29)

  • María Björk Einarsdóttir er framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins. Hún hefur starfað hjá Almenna leigufélaginu frá árinu 2014 en áður starfaði hún við sérhæfðar fjárfestingar hjá GAMMA Capital Management. Á árunum 2012 og 2013 starfaði hún hjá Íslandsbanka, sem ráðgjafi. María Björk er með B.Sc. í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og próf í verðbréfaviðskiptum.

Nánar má lesa um „Fólk á uppleið" í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi hér.