„Við erum að sjá skýr merki um afkomubata á öðrum fjórðungi," sagði Hörður Arnarson, forstjóri Marel, á uppgjörsfundi félagsins nú í morgun og einnig að miklir hagræðingarmöguleikar séu til staðar fyrir félagið á komandi mánuðum.

Eins og greint var frá í gær var rekstrarhagnaður Marel á öðrum ársfjórðungi 11,1 milljón evra sem var yfir væntingum greiningaraðila. Hagnaður eftir skatt nam 10,1 milljón evra, og skýrir lækkun skattprósentu á Íslandi að hluta til þennan lága skatt. Einnig aðgerðir í tengslum við kaup á Stork, en félagið hefur stefnt að lækkun á skattprósentu.

Sameining Marel og Stork Food System gekk í gegn þann 8.maí síðastliðinn og kom rekstur Stork því inn í reikninga félagsins á öðrum fjórðungi. Hörður Arnarson sagði á fundinum að sameiningin hefði í för með sér mikla möguleika fyrir Marel og að stjórnendur telji félagið vera komið í mjög sterka stöðu. Þá sagði forstjórinn að nýafastaðinn fjórðungur sé einn sá sterkasti sem hann hafi séð, þrátt fyrir það mikla samþættingarferli sem kaupin á Stork hafi í för með sér. Markmið Marel er að selja Food&Dairy deild Stork á næstunni, en forstjórinn gat þó ekki gefið svör við því hvenær það muni ganga í gegn.

Forstjóri Marel sagði í máli sínu að árstíðarsveiflur í starfsemi félagsins hafi minnkað mjög mikið, en að auðvitað séu þær alltaf til staðar. Hagnaður í apríl var til að mynda meiri en í maí og júní samanlagt. Á næstu mánuðum má gera ráð fyrir lækkun í föstum kostnaði hjá Marel og segir forstjórinn að helsta markmið sé að auka heildarhagnað (e. gross profit) og að lögð verði áhersla á innri vöxt og aukna arðsemi. Innri vöxtur Marel án Stork var 17% á fjórðungnum.

Vakandi yfir stöðu á fjármálamörkuðum

Varðandi áhrif ástands á fjármálamörkuðum á rekstur fyrirtækisins sagði Hörður að stjórnendur væru vakandi yfir stöðunni á fjármálamörkuðum og að „staða á fjármálamörkuðum geti haft áhrif á Marel eins og önnur félög."

Marel nýtur ekki ávinnings af lækkun á gengi krónunnar á öðrum fjórðungi vegna gengisvarna félagsins en telur félagið að sá ávinningur komi fram síðar. Tekjur í íslenskum krónum eru 1% af heildartekjum félagsins. Hörður segir að gott gengisjafnvægi sé komið í reksturinn.

Hrávöruverð hefur hækkað um allan heim og segir forstjóri Marel að það feli bæði í sér ógnanir og tækifæri fyrir félagið. Að hækkun hrávöruverðs feli í sér aukna þörf fyrir bætta nýtingu hjá viðskiptavinum þeirra, en jafnframt geti gríðarlega hátt hrávöruverð ollið því að einhver félög detti út.