Travis Kalanick forstjóri og stofnandi Uber hefur tekið ákvörðun um að taka sér tímabundið leyfi frá störfum. Ákvörðunin kemur í kjölfarið á röð umdeildra atvika í kring um Uber en einnig vegna persónulegs áfalls vegna fráfalls móður hans.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær samþykkti stjórn Uber að gerðar yrðu töluverðar breytingar innan fyrirtækisins samkvæmt tillögum í skýrslu sem Eric Holder fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna vann fyrir félagið. Í skýrslunni var lagt til að breytingar yrðu gerðar á starfsháttum og fyrirtækjamenningu Uber. Var þar einnig lagt til að breytingar yrðu gerðar í stjórnendahópi fyrirtækisins og varð það til þess að Emil Michael sem var næstráðandi innan fyrirtækisins á eftir Kalanick var sagt upp störfum.

Eftir að tilkynnt var um brotthvarf Michael í gær fór af stað orðrómur um að Kalanick myndi taka sér leyfi frá störfum.

Í bréfi til starfsmanna sinna sagði Kalanick: „Eftir atburði síðustu hef ég áttað mig á því að fyrir mér er fólk mikilvægara en vinna. Ég þarf á leyfi að halda til að syrgja móður mína sem var jarðsett síðastliðinn föstudag. Ég þarf tíma til að horfa til baka, vinna í sjálfum mér og einbeita mér að því að byggja upp framúrskarandi teymi stjórnenda."