Samgönguráðherra hefur fyrir hönd ríkissjóðs gert samning við átta íslensk útflutningsfyrirtæki og hagsmunaaðila um framhald Iceland Naturally. Gert er ráð fyrir að árlegu framlagi að upphæð einni milljón bandaríkjadala á ári til Iceland Naturally og er framlag ríkisins um það bil 70% fjárins, en fyrirtækin leggja fram 30%. Gert er ráð fyrir að þessir fjármunir standið straum af auglýsingum, fjölmiðlaherferð, viðburðum og kynningum í einstökum borgum sem og kynningu á einstökum fyrirtækjum í verslunum og á veitingahúsum.

Reglubundnar markaðsrannsóknir verði síðan gerðar til að meta áhrif verkefnisins segir í frétt á heimasíðu Ferðamálaráðs. Heimilisfang og fjármál kynningarinnar eru á skrifstofu Ferðamálaráðs í New York. Framkvæmd verkefnisins verður í höndum framkvæmdastjóra Ferðamálaráðs í New York og viðskiptafulltrúa sendiráðs Íslands í Bandaríkjunum.

Iceland Naturally felst í markaðssókn og kynningu á Íslandi og íslenskum vörum í Norður-Ameríku. Áður hafði verið gerður fimm ára samningur undir sama heiti en hann rann út í lok síðasta árs. Nýi samningurinn er til fjögurra ára. Samgönguráðherra hefur skipað tíu manna stýrihóp Iceland Naturally en í honum eru tveir fulltrúar samgönguráðherra og er annar þeirra formaður hópsins, tveir fulltrúar forsætisráðherra, tveir fulltrúar utanríkisráðherra og þrír fulltrúar stærstu hagsmunaaðila að samningnum, þ.e. Icelandair, Icelandic® USA Inc (Coldwater Seafood) og Iceland Seafood Corp., og einn fulltrúi Bændasamtaka Íslands.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts er formaður stýrihópsins. Aðrir fulltrúar eru Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi, Atli Ásmundsson, ræðismaður Íslands í Winnipeg, Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Magnús Gústafsson, forstjóri Coldwater Seafood Corp., Páll Magnússon, aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, Steinn Logi Björnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair sem og einn fulltrúi Iceland Seafood Corp.