*

laugardagur, 16. janúar 2021
Erlent 4. desember 2020 07:16

Framleiðsla bóluefna Pfizer helmingast

Bréf Pfizer lækkuðu eftir að félagið upplýsti að framleiðslumarkmið á bóluefnum við Covid 19 á árinu munu ekki nást.

Ritstjórn
EPA

Gengi bréfa bandaríska lyfjaframleiðandans Pfizer féllu um tíma um 3,1% í gær eftir að félagið upplýsti um að það myndi einungis ná að framleiða helming þess magns af bóluefnum við veirufaraldrinum sem það ætlaði sér á þessu ári, eða 50 milljón skammta í stað 100 milljón skammta.

Bóluefni félagsins, sem upplýst var að næði 90% árangri við að mynda mótefni gegn veirunni sem veldur Covid 19, var samþykkt til notkunar í Bretlandi af heilbrigðisyfirvöldum í fyrradag. Fréttirnar um árangur bóluefnisins glæddu vonir um að heimsfaraldrinum færi senn að ljúka með tilheyrandi hækkunum á mörkuðum.

Bretland var þar með fyrsta landið til að samþykkja notkun bóluefnis fyrirtækisins en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um nýtir það nýstárlega tækni sem útheimtir að bóluefnið er geimt við meiri kulda en alla jafna þarf fyrir bóluefni.

Þar með náði bóluefni fyrirtækisins að fara hraðast í gegnum allt þróunarferlið frá hugmynd að veruleika, hafandi farið í gegnum öll þrjú stig klínískra rannsókna. Nokkur lönd eins og Rússland og Kína hafa þó hafið bólusetningar án þess að klára að fara í gegnum þriðja stig rannsóknanna heldur byrjað að bólusetja almenning í stærri mæli.

Bretland hefur þegar pantað 40 milljón skammta af bóluefninu, sem duga til að bólusetja 20 milljón manns þar sem bólusetja þarf hvern einstakling tvisvar. Hins vegar hefur komið babb í bátinn hjá fyrirtækinu, sem þróaði lyfið í samstarfi við þýska fyrirtækið BioNtech ásamt samvinnu við kínverska fyrirtækið Fosun Pharmaceuticals, eins og áður segir.

Vandamál í birgðalínum leiðir til þess að Pfizer nær einungis að framleiða 50 milljón skammta í ár, það er nóg til að bólusetja 25 milljón einstaklinga, í stað þeirra 100 milljón skammta sem áætlað var. Félagið hyggst samt sem áður framleiða ríflega milljarð skammta á næsta ári.

„Að tryggja nægilegt magn hráefnis fyrir birgðalínurnar tók lengri tíma en búist var við,“ hefur Bloomberg eftir talsmanni fyrirtækisins. „Jafnframt er mikilvægt að benda á að niðurstaða klínísku rannsóknanna komu seinna en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.“

Stikkorð: Pfizer Covid 19 Bóluefni