*

laugardagur, 6. júní 2020
Erlent 12. febrúar 2018 15:15

Framtíð Zuma ráðin í dag

Jakob Zuma forseti Suður Afríku verður líklega beðinn um að segja af sér vegna fjölda hneykslismála og fjársóunar.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Stjórnarflokkur Suður Afríku er sagður líklegur til að fara fram á afsögn Jacob Zuma, forseta landsins svo varaforsetinn, og núverandi formaður flokksins, Cyril Ramaphosa geti tekið við stjórnartaumunum í aðdraganda kosninga í landinu á næsta ári.

Cyril Ramaphosa sigraði fyrrverandi eiginkonu Zuma, sem er fjölkvænismaður sem gifts hefur sex sinnum, Nkosazana Dlamini-Zuma, í baráttu um að leiða Afríska þjóðarráðið á flokksþingi í desember síðastliðnum með litlum mun. Kom það í kjölfar þess að skuldabréf ríkisins voru færð í ruslflokk eftir að Zuma hafði vikið virtum fjármálaráðherra úr starfi að því er FT segir frá. Skuldabréf landsins í Bandaríkjadölum hafa fallið í dag vegna óvissunnar í stjórnmálum landsins að því er Reuters segir frá.

Jacob Zuma getur sjálfur ekki boðið sig fram til þriðja 5 ára kjörtímabilsins en hann studdi eiginkonuna sína fyrrverandi sem jafnframt hefur verið ráðherra í stjórn Suður Afríku, en hún á með honum fjórar dætur. Var hún talin líkleg til að hlífa honum við spillingarákærum ef hún kæmist til valda.

Í dag kemur framkvæmdastjórn flokksins saman í Pretoríu, einni af höfuðborgum landsins, en talið er að ef hann verður ekki að óskum um afsögn muni stjórnin fyrirskipa þingmönnum flokksins að styðja vantraustsyfirlýsingu gegn forsetanum að því er WSJ segir frá.

19 sinnum sakaður um spillingu sem og nauðgun

Á 9 ára valdatíma Zuma, sem sjálfur tók við af fyrrum forseta eftir beiðni um afsögn, hefur hann 19 sinnum verið ásakaður fyrir rétti um spillingu en enn hefur ekki tekist að dæma hann. Umdeildust eru tengsl hans við Gubta fjölskylduna sem auðgast hefur mikið á tengslum við stjórnvöld í Suður Afríku og hefur verið talað um að þeir hafi hrifsað til sín völd og áhrif í gegnum flokkseinræði Afríska þjóðarráðsins. Jafnframt hefur Zuma verið sakaður um nauðgun.

Flokkurinn, sem ráðið hefur í landinu síðan 1994 þegar síðustu leyfar aðskilnaðarstefnu hvíta minnihlutans var formlega afnumdar, hefur séð hlut sinn í kosningum minnka niður í rétt rúmlega helming í sveitarstjórnarkosningum 2016 eftir að hafa verið með allt að 75% stuðning í kosningum. Á valdatíma sínum hefur flokkurinn breytt stjórnarskrá landsins 19 sinnum ásamt því að sameina stjórnsýslueiningar og beitt öðrum aðferðum til að tryggja völd sín í landinu.

Baráttan verður milli Maimani og Ramaphosa

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Lýðræðisbandalagið, sem á rætur að rekja til hvítra andstæðinga minnihlutastjórnarinnar, ræður þó einu héraði, höfðahéraði vestra og nokkrum stærri borgarstjórnum í samvinnu við aðra flokka.

Leiðtogi flokksins og væntanlegt forsetaefni er Mmusi Maimane og mun hann því takast á við Cyril Ramaphosa í kosningunum 2019, þar sem kosið er listakosningum en þingið kýs sér síðan forseta.

Fleiri fréttir frá Suður Afríku: