Stóru bankarnir þrír högnuðust samanlagt um tæpa 43 milljarða króna á fyrri helmingi ársins. Þetta eru svo sem engin ný tíðindi en þau hafa vakið marga til umhugsunar. Hér er enda um háar upphæðir að ræða – í ljósi þeirrar ládeyðu sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf undanfarin ár og þeirrar staðreyndar að Ísland er smám saman að vinna sig upp úr einni dýpstu efnahagslægð sögunnar – og minna þær marga á þær tölur sem bárust úr bankakerfinu sumarið 2008, skömmu áður en allt hrundi.

Það skal tekið fram strax í upphafi að hér er á engan hátt verið að gefa í skyn að nýtt bankahrun sé framundan eða að uppgjör bankanna gefi ranga mynd af stöðu þeirra. Ennfremur skal það tekið fram að eins og taflan sýnir er samanlagður hagnaður bankanna á fyrri helmingi þessa árs aðeins rúmur helmingur (55%) af því sem var á fyrri helmingi ársins 2008.

Eins og m.a. hefur komið fram í Viðskiptablaðinu vekja uppgjör bankanna fyrir fyrri hluta þessa árs vissar spurningar um sjálfbærni rekstrar þeirra enda skýrist afkoman að miklu leyti af óreglulegum liðum.

Á mest við um Arion

Jón Þór Sturluson, dósent við Háskólann í Reykjavík, segir að um þessar mundir stafi verulegur hluti hagnaðar bankanna af öðru en vaxtamun. Þegar eignir voru fluttar yfir í nýja banka var framkvæmt viðamikið mat á virði þeirra. Engu að síður voru aðstæður þannig að mikil óvissa ríkti um virði þeirra, sérstaklega virði lána til fyrirtækja. „Eftir því sem á líður koma gæði eignasafnanna betur í ljós,“ segir Jón Þór. Að hans sögn virðist sem að nú horfi betur með innheimtu en útlit var fyrir veturinn 2008-2009 og því eru eignirnar endurmetnar en hann segir þó erfitt fyrir utanaðkomandi að greina hversu ábyggilegt þetta endurmat er.

„Í raun á þessi lýsing fyrst og fremst við um Arion banka fyrir fyrri hluta árs 2011, en þar var endurmatsliðurinn sérstaklega hár, eða rétt tæpir 30 milljarðar. Sú fjárhæð rann þó ekki öll til bankans sjálfs því stór hluti fór beint í þrotabú Kaupþings samkvæmt fyrirliggjandi uppgjöri á milli gamla og nýja bankans. Í tilfelli hinna bankanna er hluti annarra tekna en vaxtamunar í hreinum tekjum lægri en hann var árið 2010 og í raun lægri en hann var árið 2007,“ segir Jón Þór jafnframt.

Nánar um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak undir Tölublöð.