„Ég er bara forstjóri Landsvirkjunar og hættur í pólitík,“ segir Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, þegar hann er spurður hvort hann telji að hugmyndafræðilegur ágreiningur ríki innan Sjálfstæðisflokksins um útrás fyrirtækja í opinberri eigu. Friðrik bætir því við að verkefni stjórnenda Landsvirkjunar sé að auka verðmæti fyrirtækisins.

Tilefni fyrirspurnar Viðskiptablaðsins er stofnun dótturfélags Landsvirkjunar, Landsvirkjun Power (LP), sem er meðal annars ætlað að sjá um orkutengda útrásarstarfsemi Landsvirkjunar. LP var stofnað í mars en um áramótin verður starfsemi þess umsvifameiri þegar starfsemi verkfræði- og framkvæmdasviðs Landsvirkjunar flyst undir hatt þess.

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir ákvörðun Landsvirkjunar um LP setja REI-málið svonefnda í sérkennilegt ljós. Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segist þeirrar skoðunar að það sé umdeilanlegt að nota opinbera fjármuni í áhættustarfsemi hvort sem er innalands eða erlendis. Hann kveðst þeirrar skoðunar að selja eigi Landsvirkjun.

Nánar er fjallað um Landsvirkjun Power í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það á [email protected] .