Friðrik Sophusson, fyrrverandi fjármálaráðherra og forstjóri Landsvirkjunar var í dag kjörinn formaður stjórnar Íslandsbanka en aðalfundur bankans stendur nú yfir.

Aðrir í  stjórn bankans eru Martha Eiríksdóttir, sem situr fyrir hönd íslenska ríkisins.

Fyrir hönd kröfuhafa sitja Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, Bretinn Neil G. Brown, Bandaríkjamennirnir John E. Mack sem áður starfaði hjá Bank of America og Reymond J. Quinland sem starfaði áður hjá Citibank og loks Marianne Ökland.

Friðrik sagði í ræðu sinni í dag að ný stjórn myndi fara ofan í stefnu og markmið bankans á næstunni.

Tilkynning frá Íslandsbanka, vegna skipunar nýrrar stjórnar, segir eftirfarandi:

„Skilanefnd Glitnis banka hf., fyrir hönd kröfuhafa, ákvað þann 15. október s.l. að eignast 95% hlut í Íslandsbanka á móti 5% hlut ríkisins.  Þau sem nú hafa verið kosin í stjórn bankans hafa öll mikla reynslu af viðskiptum, fjármálamarkaði og stjórnun fyrirtækja.

Á hluthafafundi sem haldinn var í dag, 25. janúar 2010 var Friðrik Sophusson, fyrrverandi fjármálaráðherra og forstjóri Landsvirkjunar,  kjörinn stjórnarformaður en samþykktir félagsins kveða á um að hluthafafundur kjósi stjórnarformann sérstaklega.

Eftirfarandi sex stjórnarmenn hafa verið tilnefndir af hálfu ISB eignarhaldsfélags Glitnis banka:

Neil Graeme Brown

Neil Graeme Brown er breskur ríkisborgari og hefur yfirgripsmikla reynslu á sviði fjármálastarfsemi og endurskipulagningar alþjóðlegra fyrirtækja. Neil Brown hefur m.a. starfað sem yfirmaður fjármálaþjónustu Apax Partners. Hann var meðeigandi endurskoðunar skrifstofu Coopers og Lybrand (Nú PwC) í London 1990 – 1996 og hefur víðtæka þekkingu á sviði yfirtöku og samruna fyrirtækja í Bandaríkjunum og Evrópu. Brown hefur komið að skráningu fjölda fyrirtækja í Kauphöllina í London sem og á Nasdaq og setið í stjórnum fjölda fyrirtækja á sviði fjárfestinga og fjármála. Neil Brown hefur MA gráðu frá Emmanuel College Cambridge og er löggiltur endurskoðandi.

John E. Mack

John E. Mack er Bandaríkjamaður og hefur mikla þekkingu og reynslu á sviði alþjóðlegrar banka- og fjármálaþjónustu sem og á sviði yfirtöku og samruna fyrirtækja. Þá hefur hann nokkra sérþekkingu á sviði innleiðingar góðra stjórnarhátta fyrirtækja (Corporate Governance). John Mack var forstjóri og fjármálastjóri hjá Shinsai Bank í Tokyo frá 2002-2005 en þar leiddi hann m.a. skráningu bankans á hlutabréfamarkað.

John Mack starfaði hjá  Bank of  America og tengdum félögum á árunum 1978-2001, síðast sem yfirmaður fjármögnunar móðurfélags bankans.  Þá var hann einnig forstjóri  fyrirtækisins Strategic Solutions, sem er að meirihluta í eigu Bank of America, en það fyrirtæki sérhæfir sig í kaupum og úrvinnslu  erfiðra krafna og útlána. John Mack er með MBA gráðu frá The Virginia Darden School of Business.

Raymond J. Quinlan

Ray J. Quinlan er Bandaríkjamaður og hefur starfað þar á fjármálamarkaði um áratugaskeið. Hann starfaði hjá Citibank og félögum tengdum bankanum frá 1983 – 2007. Ray Quinlan var stjórnarformaður og forstjóri viðskiptabankasvið Citibank í Norður-Ameríku á árunum 2005-2007 og var ábyrgur fyrir rekstri um 3500 útibúa. Þar á undan, á árunum 2002-2005,  stýrði Quinlan og bar ábyrgð á öllum yfirtökum og samrunum sem bankinn og dótturfélög hans komu að. Þá var hann um skeið forstjóri alþjóðlegrar kreditkortadeildar bankans og fjármálastjóri Citibank í Norður-Ameríku.

Ray Quinlan er með M.Phil og Ph.D. gráður í hagfræði frá The Graduate School and University Center of the City University of New York, og MBA gráður frá Columbia University og The New York University, Stern School of Business.

Friðrik Sophusson

Friðrik Sophusson hefur víðtæka reynslu og þekkingu á sviði efnahagsmála og  stjórnunar fyrirtækja og hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök.  Friðrik var framkvæmdastjóri Stjórnunarfélags Íslands frá árinu 1972 til 1978 þegar hann tók sæti á Alþingi. Hann gegndi þingmennsku um tuttugu ára skeið eða allt til ársins 1998. Friðrik átti sæti í ríkisstjórn árin 1987 – 1988, þá sem iðnaðar og orkumálaráðherra og síðar sem fjármálaráðherra 1991 – 1998.

Árið 1999 tók Friðrik við starfi forstjóra Landsvirkjunar sem hann gegndi í  tæp 11 ár. Friðrik hefur sinnt fjölda trúnaðarstarfa og átt sæti í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og stofnana. Þeirra  á meðal eru seta í bankaráði Landsbankans á árunum 1990 – 1992, seta í stjórnum Pharmaco, Viðskiptaráðs, Enex, Samorku, Nordel og Eurelectric, samtaka evrópska raforkuiðnaðarins. Friðrik Sophusson var um árabil varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Friðrik er með embættispróf frá lagadeild Háskóla Íslands.

Marianne Økland

Marianne Økland er norskur ríkisborgari og starfar í dag sem framkvæmdastjóri Avista Partners sem sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði skuldabréfaútgáfu og fjármögnunar. Marianne starfaði hjá JP Morgan árunum 1998-2007, m.a. sem sérfræðingur á sviði skuldabréfafjármögnunar fyrirtækja og fjármálastofnana á. Á árunum 1994-1998 starfaði hún við skuldabréfafjármögnun hjá Union Bank of Switzerland (UBS).

Marianne hefur einnig reynslu á sviði ráðgjafar en hún starfaði sem ráðgjafi hjá ráðgjafafyrirtækinu Marsoft Limited á árunum 1988-1993, en fyrirtækið sérhæfir sig ráðgjöf tengdri fjárfestingum í skipaiðnaði.  Marianne Økland er með M.Sc. gráðu í fjármálum, hagfræði og stærðfræði frá Norwegian School of Economis and Business Administration þar sem hún starfaði við rannsóknir og kennslu um nokkurt skeið.

Árni Tómasson

Árni Tómasson hóf störf við endurskoðun árið 1979 og hefur starfað við endurskoðun banka og fjármálafyrirtækja frá árinu 1985. Hann var meðeigandi og síðar stjórnarformaður hjá Deloitte hf. til ársins 2001, var formaður Félags löggiltra endurskoðenda og forseti Norðurlandasambands endurskoðenda. Árni hefur stundað kennslu í meistaranámi við Háskólann í Reykjvík og áður í Háskóla Íslands samtals í yfir 20 ár og hefur gegnt formennsku í prófnefnd endurskoðenda sl. 6 ár.

Árni starfaði sem bankastjóri Búnaðarbankans frá 2001-2003, en hefur frá þeim tíma starfað við eigið ráðgjafarfyrirtæki. Árni var skipaður formaður skilanefndar Glitnis banka hf. í október 2008 og hefur leitt starfsemi nefndarinnar og samninga kröfuhafa Glitnis við íslenska ríkið frá þeim tíma. Árni Tómasson er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og löggiltur endurskoðandi.

Fulltrúi tilnefndur af Bankasýslu ríkisins samkvæmt tillögum valnefndar:

Martha Eiríksdóttir, Cand. Oceon og B.Ed.

Martha Eiríksdóttir er sjálfstætt starfandi verkefnastjóri. Hún starfaði sem yfirmaður viðskiptatengsla og markaðsmála hjá Landsneti hf. á árunum 2003-2009. Á árunum 2001-2003 var hún framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Íslandssíma hf.  Martha starfaði sem deildarstjóri hjá Europay International í Belgíu um sex ára skeið, frá 1994-2000 en hún hafði áður starfað sem forstöðumaður markaðssviðs Kreditkorts hf. á Íslandi. Þá var Martha forstöðumaður markaðssviðs Útvegsbankans á árunum 1988-1990. Martha tók sæti í bankastjórn Íslandsbanka í febrúar 2009 og er varaformaður sjtórnar, hún var stjórnarformaður Kreditkorts hf. 2008-2009 og hefur setið stjórn Icelandair Group frá 2006. Martha er Cand. Oceon frá Háskóla Íslands og B.Ed. frá Kennaraháskóla Íslands."