Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, viðskiptaráðherra Kína, undirrituðu í dag í Peking fríverslunarsamning milli Íslands og Kína að viðstöddum forsætisráðherrum ríkjanna. Þetta er fyrsti fríverslunarsamningur sem Evrópuríki gerir við Kína og veitir íslenskum fyrirtækjum og útflutningsgreinum forskot á ört vaxandi Kínamarkað.

Í tilkynningu er haft eftir Össuri að samningurinn sé sögulegur og að hann muni skapa störf á Íslandi eins og þegar séu komin fram dæmi um og opna ótal tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf og útflutning. Hann segir að fríverslun við Kína gefi íslenskum fyrirtækum sérstakt forskot inn á þann markað heimsins sem vaxi langhraðast. Sú staðreynd að Ísland sé fyrsta Evrópuríkið sem nái slíkum samningi við Kína skapi íslensku atvinnulífi einstakt forskot.

Helsti ávinningur fríverslunarsamningsins við Kína er niðurfelling tolla á öllum helstu útflutningsafurðum Íslands. Þar með er miklum hindrunum rutt úr vegi útflutnings íslenskrar framleiðslu til Kína, að því er segir í tilkynningunni. Allar sjávarafurðir verða þannig tollfrjálsar, flestar strax eftir gildistöku samningsins, en örfáar að loknum 5 eða 10 ára aðlögunartíma. Algengir tollar á þeim, og mörgum öðrum mikilvægum afurðum sem Ísland flytur út, hafa verið á bilinu 10-12%.