Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, telur íslenska fjárfesta ekki hafa bolmagn til að kaupa 28,2% í Landsbankanum. Þetta segir hann í viðtali á Morgunvakt RÚV.

Frosti, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, telur umræðuna um sölu bankans ekki nægilega þroskaða. Honum finnst ekki sjálfgefin staðreynd að ríkið selji eignir sínar.

Það er alls ekki sjálfgefið að ríkið eigi að selja eignir sínar - Landsvirkjun, Landsbankann, Landspítalann, eða önnur innviði. Það má segja að peningakerfið sé hluti af innviðum okkar.

Fjárfestar hafi ekki bolmagn

Frosti vísar svo til skýrslu Bankasýslunnar, sem Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum, en þar er snert á því að sýslan telji ólíklegt að íslenskir fjárfestar hafi einfaldlega fjármagnið til að kaupa 28,2% hlut í Landsbankanum.

Það kemur einnig mjög skýrt fram í skýrslu Bankasýslunnar að það sé ekki bolmagn á markaðnum hérna heima fyrir til þess að kaupa þennan 28% hlut sem er verið að skoða sölu á.

Það þýðir, að mat Bankasýslunnar er að það þurfi að finna kaupendur erlendis. Hluthafa, einhverskonar sjóði sem vilja fjárfesta í íslenskum bönkum.

Bankinn eigi að vera í þjóðareign

Frosti snerti svo einnig á því að mat Framsóknarflokksins sé að bankinn eigi að vera áfram í eigu ríkisins. Þá eigi stefna bankans að vera sú að draga úr vaxtaokri annarra banka, gegn því að hann verði rekinn með minni hagnaði.

Er ekki bara ágætt að við þjóðin eigum þennan banka saman? Þetta er mjög arðbært og öflugt fyrirtæki.

Einnig telur Framsóknarflokkurinn að eigendastefnu hans eigi að breyta þannig að hann keppi ekki að hámörkun hagnaðar, vegna þess að hér er fákeppni á bankamarkaði.

Hann hefur hlutverki að gegna, að draga úr vaxtaokrinu og öllum þjónustugjöldunum, og þá verða hinir bankarnir að fylgja eftir.