Fylgi Donald Trump er nú 53% hjá kjósendum Repúblikanaflokksins á landsvísu í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem unnin var af The Economist og  YouGov undir lok síðustu viku.

Þetta er í fyrsta sinn sem hann kemst yfir 50% á landsvísu en fylgi hans hefur aukist töluvert á síðustu tveimur vikum. Hæsta fylgi sem hann hafði áður náð var vikuna 24 til 27 febrúar sl. en þá var hann með 44% fylgi.

Síðustu vikur hafa aðrir frambjóðendur Repúblikanaflokksins gagnrýnt Trump harðlega en það virðist ekki hafa haft tilætluð áhrif. Fylgi Marco Rubio hefur hrunið á síðustu vikum og er nú 10%, en hann tilkynnti í nótt að hann hefði dregið framboð sitt til baka.

Næstur á eftir Trump er sem fyrr Ted Cruz, en hann er með 22% fylgi. John Kasich sem vann Ohio ríki í nótt mælist með 11% fylgi.