Margrét Marteinsdóttir, fyrrverandi fréttakona og dagskrárstjóri á RÚV verður vert á nýju Kaffihús Vesturbæjar sem fyrirhugað er að opna í húsnæði sem áður hýsti Apótek Vesturbæjar á Melunum. Margrét var mörg störf innan RÚV frá árinu 1998 og varð dagskrárstjóri haustið 2012. Í október árið 2013 hætti hún störfum. Margrét lýsir ástæðum þess að hún hætti hjá RÚV í einlægu viðtali í Fréttatímanum í dag.

Hún segir:

„... ég varð að hætta. Það komu upp aðstæður hjá mér, í mínu lífi, sem urðu til þess að ég hafði ekki val og ákvað að segja upp. Það hafði byggst upp hjá mér alvarlegur kvíði og einn daginn var ég að labba í tíma í hugleiðslu sem ég sótti á þessum tíma hjá Zen á Íslandi. Þá kemur það bara til mín, að ég væri að fara að hætta. Ég var búin að vera ósátt og hafði ekki liðið vel í starfinu, aðallega af því að mér leið ekki vel. Ég snéri við, skrifaði uppsagnarbréfið og fór ekkert í þennan hugleiðslutíma og skilaði því inn daginn eftir.“

Fram kemur í viðtalinu að Margrét hafi greinst með mjög alvarlegan kvíða sem hafði verið undirliggjandi í mörg ár án þess að hún hafi gert sér grein fyrir því.

Þung skref að koma með veikindavottorð í vinnuna

„Ég ætlaði alltaf að halda bara áfram, ég hef alltaf haldið áfram. Var alltaf töffarinn en allt í einu fór það orð að fara svolítið í taugarnar á mér. Fannst það bara glatað. Það er ekkert töff að vera töffarinn sem djöflast áfram. Á öllum vinnustöðum er staðan sú að fólk gleymir því sem gerist fyrir utan vinnustaðinn, það fer auðvitað eftir því hvernig maður er gerður. [...] Ég hef líklegast alltaf verið með undirliggjandi kvíða, en náð að líta framhjá þeirri staðreynd. Ég dáðist mikið að þessu fólki þegar rækilega á móti blés. Það er enn mjög erfitt fyrir flesta að viðurkenna að veikindi séu af andlegum toga. Því miður er það þannig. Og fyrir mig, sem var nýbúin að komast að því með sjálfa mig, voru það þung skref að koma með veikindavottorð í vinnuna.

„Ákvörðunin um að hætta var einhvern veginn tekin fyrir mig, ég var ekki við stjórn og það er kannski lærdómurinn að láta það ekki koma fyrir aftur og allt það fólk sem finnur fyrir ónotum og er með kvíðahnút í maganum vegna vinnu verður að hugsa um  það, staldra  við og pæla vel og lengi í því hvort það sé að ganga of nærri sér – ekki halda bara alltaf áfram. Það er mjög klisjukennt þetta með að setja grímuna fyrst á sig og svo börnin í flugvélunum, en það er bara þannig. Það er alveg hægt að flækja þetta, en þetta er bara svona einfalt. Ég náði að átta mig á því.“