Norðurheimskautsbaugshlaup TVG-Zimsen verður haldið í Grímsey 8. september næstkomandi. Þetta er fyrsta almenningshlaupið sem efnt er til í Grímsey og það nyrsta sem haldið hefur verið hér á landi. TVG Zimsen er styrktaraðili hlaupsins.

Tvær vegalengdir verða í boði í hlaupinu. Annars vegar er það einn hringur í kringum Grímsey en hann telur tólf kílómetra. Hin vegalengdin hljóðar upp á tvær ferðir í kringum eyjuna. Það er rétt rúmlega hálft maraþon eða 24 kílómetrar.

Fram kemur í tilkynningu að ræst verði í hlaupið kl. 11.00 að morgni laugardagsins 8. september við félagsheimilið í Grímsey. Tímataka verður í báðum leiðunum. Drykkjarstöðvar verða á leiðinni þar sem hlaupurum verður boðið upp á drykki.

Hægt er að komast til Grímseyjar með ferjunni Sæfara og með flugi með Norlandair og Flugfélagi Íslands. Skráning er í hlaupið á vefnum www.hlaup.is en skráningu lýkur föstudaginn 31. ágúst kl. 22.00.

Ekkert kostar að taka þátt í hlaupinu.