*

mánudagur, 25. október 2021
Erlent 14. maí 2021 17:30

Gefur milljarð í hjálparstarf

Vitalik Buterin gaf yfir milljarð Bandaríkjadollara af rafmynt til hjálparstarfs í Indlandi. Upphæð gjafarinnar lækkaði töluvert síðan.

Snær Snæbjörnsson
Buterin gaf grínrafmyntir að andvirði milljarði bandaríkjadollara til hjálparstarfa.
epa

Vitalik Buterin, annar stofnanda rafmyntarinnar Ethereum hefur gefið það sem nemur yfir milljarð Bandaríkjadollara af grínrafmynt til COVID-19 hjálparstarfs í Indlandi auk annarra góðgerðarmála. Forbes greinir frá.

Buterin, sem nýverið varð yngsti rafmyntamilljarðamæringur heims, fékk rafmyntirnar að gjöf frá stofnendum Shiba Inu coin (SHIB), Dogelon (Elon) og Akita Inu (AKITA). Myntirnar, sem vísa allar í japanska veiðihunda, fóru á flug í kjölfar vinsælda annarrar grínrafmyntar, Dogecoin, sem vísar einnig í japanskan veiðihund.

Forði þessara þriggja mynta er mun stærri en Dogecoin og var ein færsla Buterin til hjálparstarfs í Indlandi upp á 50 billjónir Shiba Inu coin, að andvirði 1,2 milljörðum Bandaríkjadollara.

Myntirnar fékk hann að gjöf frá stofnendum þeirra undir þeim forsendum að hann myndi ekki selja þær, en það myndi lækka virði þeirra. Í kjölfar gjafarinnar lækkaði verð á Shiba Inu Coin um 36%, Dogelon um 65% og Akita Inu um rúm 50%. Því gæti raunupphæð gjafarinnar reynst umtalsvert lægri en þegar hún var gefin. 

Stikkorð: Ethereum Buterin Grínrafmyntir