*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 8. júlí 2018 16:05

Gegnsærra með húsnæðislið

Nýr aðstoðarseðlabankastjóri segir tillögur um að taka húsnæðisliðinn út úr verðbólgumælingum verða til að flækja málin.

Höskuldur Marselíusarson
Rannveig Sigurðardóttir, sem tók við sem aðstoðarseðlabankastjóri í byrjun mánaðarins, hefur unnið í bankanum í 16 ár.
Eva Björk Ægisdóttir

Rannveig Sigurðardóttir tók við stöðu aðstoðarseðlabankastjóra í byrjun mánaðarins en hún er skipuð í embættið af forsætisráðherra til næstu fimm ára. Hún hefur starfað í Seðlabankanum síðustu 16 árin, þar af frá árinu 2009 sem aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs bankans, staðgengill aðalhagfræðings og ritari peningastefnunefndar bankans.

„Það var mjög eðlileg starfsþróun fyrir mig að sækja um þetta starf þar sem ég hef verið að vinna við greiningu á íslensku efnahagslífi og komið að öllum ákvörðunum, og talað fyrir þeim, í peningastefnumálum undanfarin níu ár. Svo ég tel mig hafa verið með puttann á púlsinum í efnahagsmálum þjóðarinnar ef svo má segja. Það sem helst breytist kannski er að ég verð núna sjálf í peningastefnunefnd í stað þess að skrifa upp hvað hinir segja, sem verður mjög skemmtilegt,“ segir Rannveig.

Hún myndi fagna því ef hún fengi annan aðstoðarseðlabankastjóra sér við hlið samkvæmt tillögum í skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu. Þar er gert ráð fyrir að annar bæri ábyrgð á peningamálunum og hinn á fjármálastöðugleika. „Starf aðstoðarseðlabankastjóra er mjög óskilgreint í lögum, þar stendur nánast eingöngu að hann sé staðgengill seðlabankastjóra og sitji bæði í peningastefnunefnd og kerfisáhættunefnd,“ segir Rannveig.

„Að koma beinna að starfi kerfisáhættunefndar og fjármálastöðugleika er kannski það sem er nýtt fyrir mér, svo miðað við stöðuna í dag þá lægi það kannski beinna við að ég tæki að mér peningamálin í slíkri skiptingu en ég geri ráð fyrir að þegar lögin hafa verið samþykkt verði ég líka orðin fullfleyg í fjármálastöðugleikanum, sem Arnór Sighvatsson, fyrirrennari minn, sinnti mikið.“

Húsnæðisliður góð vísbending

Rannveig tekur þó fram að bankinn hafi ekki myndað sér neina skoðun á þeim ellefu tillögum sem fram koma í skýrslunni en segir margt annað í þeim mjög jákvætt.

Viðskiptablaðið ræddi við hana einnig um að hún telur ekkert í grunngerð íslensks þjóðfélags sem heimti það að vextir hér á landi verði að vera hærri en annars staðar, það vanti fyrst og fremst aðhald í ríkisfjármálum og að launahækkanir séu í takt við svigrúm hagkerfisins.

„Það verður þó að gera greinarmun á þessum tillögum, sumar þeirra eru eingöngu tæknilegs eðlis sem hægt er að gera innanhúss, en aðrar krefjast lagabreytinga í samvinnu við stjórnvöld,“ segir Rannveig sem þó er tilbúin að ræða aðeins um þá tillögu skýrsluhöfunda sem einna mesta athygli vakti. Það er að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs sem bankinn miðar verðbólgumarkmið sitt við.

„Það eru alveg rök með og á móti því og ég held að peningastefnunefnd geti alveg lifað með hvoru tveggja. Aftur á móti held ég að það verði auðveldara að fjalla um hvað er að gerast í hagkerfinu ef við höldum húsnæðisliðnum inni. Með því erum við ekki að reyna að hafa áhrif á eignarverð, heldur er hann ákveðin vísbending um þá spennu sem er annaðhvort komin eða er að byggjast upp í hagkerfinu.

Við sáum það til dæmis eftir fall bankanna að þá var vísitala neysluverðs án húsnæðis að hækka meira en með. Síðan byggðist upp veruleg framleiðsluspenna hérna árin 2015 og 2016, þegar verðbólgan var í raun neikvæð án húsnæðisliðarins. Það er flóknara að útskýra það aðhaldsstig sem þarf að vera, ef sú vísitala sem verðbólgumarkmiðið er miðað við, er að þróast í öfuga átt við stöðu hagkerfisins.“