Gengi 19 af 22 félögum á aðalmarkaði hækkaði á grænum degi Kauphallarinnar í dag. Fasteignafélagið Eik er eina félagið sem lækkaði, um 0,8% í óverulegum viðskiptum.

Gengi bréfa Sýnar hækkaði nokkuð, um 4,35%, og sömuleiðis gengi Icelandair, um 3,8%. Þá var mesta veltan með bréf Marel sem hækkuðu um tæp þrjú prósentustig í 1,4 milljarða króna veltu.

Hlutabréfaverð Origo hækkaði hins vegar lang mest allra félaga í dag. Gengið hækkaði um meira en 20% í fyrstu viðskiptum dagsins, en hækkunin nam 17,9% við lokun markaða og námu viðskipti með bréfin tæpum hálfum milljarði króna. Gengi upplýsingatæknifyrirtækisins stendur nú í 82,5 krónum og hefur aldrei verið hærra, en það stóð í 70 krónum við lokun markaða í gær.

Origo tilkynnti í gærkvöldi um samkomulag um skuldbindandi kaupsamning um sölu á 40% hlut félagsins í Tempo til bandaríska tæknifjárfestingarsjóðsins Diversis Capital á 195 milljónir dala, eða sem nemur 27,8 milljörðum króna.

Söluhagnaður Origo er áætlaður um 156 milljónir dala eða um 22,2 milljarðar króna. Til samanburðar nam markaðsvirði Origo 30,2 milljörðum við lokun Kauphallarinnar í gær.