Gerður Ríkharðsdóttir rekstrarhagfræðingur hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Cintamani. Um áramótin tekur hún við af Dagnýju Guðmundsdóttur, sem hefur stýrt félaginu síðastliðin tvö ár.

Fram kemur í tilkynningu frá Cintamani að Gerður er einn reyndasti stjórnandi smásölufyrirtækja landsins. Hún var framkvæmdastjóri IKEA í þrjú ár, framkvæmdastjóri Útilífs í fimm ár og undanfarin sex ár hefur hún verið framkvæmdastjóri sérvörufyrirtækja Haga. Gerður sótti menntun sína til Bandaríkjanna og tók þar mastersgráður annars vegar í rekstrarhagfræði og hins vegar starfsmannastjórnun.

Þá segir í tilkynningunni að Dagný ætli að snúa sér að öðrum verkefnum.