*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 4. júní 2021 11:42

Gildi ekki lengur stærsti hluthafinn

Gildi-lífeyrissjóður er kominn undir 5% eignarhlut í Icelandair og hefur sjóðurinn minnkað við sig um fjórðung.

Jóhann Óli Eiðsson
EPA

Gildi-lífeyrissjóður hefur minnkað enn frekar við sig í Icelandair og er nú ekki lengur stærsti hluthafi félagsins. Sjóðurinn seldi nýverið tæplega 57 milljónir nafnverðshluta í flugfélaginu og er komið undir 5% í því.

Eftir hlutafjárútboð Icelandair síðasta haust var Gildi stærsti hluthafi félagsins og átti hann til að mynda 6,35% í því um áramótin. Síðan þá hefur sjóðurinn minnkað við sig og á nú 4,84%. Alls hefur sjóðurinn selt ríflega 500 milljónir hluta frá lokum útboðsins í september.

Sem stendur er gengi Icelandair Group um 1,5 króna á hvern hlut en það hefur rokkað talsvert undanfarna mánuði. Hæst fór það í 1,84 krónur í byrjun febrúar en sex vikum síðar var það komið niður í 1,3 krónur.

Eftir viðskiptin er LSR stærsti hluthafi Icelandair, það er ef hlutur A- og B-deildar eru lagðir saman, með í kringum 5% hlut. Þá er Brú lífeyrissjóður með 4,77% í félaginu samkvæmt nýjasta lista félagsins yfir 20 stærstu hluthafana.

Stikkorð: Icelandair Gildi