*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 8. október 2021 14:19

Gildi lagðist gegn tillögu stjórnar

Gildi telur vafasamt að réttilega hafi verið staðið að breytingum á tilgangi Skeljungs á hluthafafundi í gær.

Ingvar Haraldsson

Gildi lífeyrissjóður lagðist ýmist gegn eða sat hjá í atkvæðagreiðslu um tillögum stjórnar Skeljungs um breytingar á samþykktum félagsins á hluthafafundi félagsins sem fór fram í gær. Telur sjóðurinn vafamál hvort framkvæmd hluta kosningarinnar standist skoðun.

Gildi er næst stærsti hluthafi Skeljungs með 10,34% hlut. Fjárfestingafélagið Strengur eignaðist í byrjun þessa árs 50,06% í Skeljungi. Jón Ásgeir Jóhannesson, er stjórnarformaður Strengs og Skeljungs og koma  þrír af fimm stjórnarmönnum Skeljungs frá Strengs hópnum.

Í bókun sem Gildi lagði fram á fundinum og hefur ekki enn verið birt á vef Skeljungs er viðamestu athugasemdirnar við tillögu um að fella burt ákvæði um að samþykki allra hluthafa þurfi til að gera verulegar breytingar á tilgangi félagsins. Síðar á dagskrá fundarins var að finna tillögu sem fól í sér umtalsverðar breytingar á tilgangi félagsins samkvæmt samþykktum þess.

Samþykki allra fellt út

Samkvæmt lögum um hlutafélög er áskilið að aukinn meirihluta, það er 2/3 atkvæða, þurfi til að gera breytingar á tilgangi félags. Ákvæði samþykktanna gekk því lengra en lög áskilja. Áður en til þeirrar atkvæðagreiðslu kom var kosið um það hvort ætti að fella fyrrnefnda grein samþykktanna brott, það er um að samþykki allra þyrfti til að breyta tilgangi félagsins.

„Gildi hefur efasemdir um að slíkt fyrirkomulag standist og telur að samþykki allra hluthafa félagsins þurfi til að fella ákvæðið á brott úr samþykktum. […] Er í raun þýðingarlaust að áskilja samþykki allra hluthafa fyrir tilteknum breytingum ef aukinn meirihluti getur síðan fellt þann rétt á brott og samþykkt þær í kjölfarið,“ segir í bókun sjóðsins. Svo fór að umrædd tillaga var samþykkt með 75% greiddra atkvæða. Aðrar tillögur voru 

Gildi lagðist einnig gegn breytingum á ákvæði um tilgang félagsins þar sem í tillögunni felist að „félaginu er í reynd breytt í fjárfestingafélag án sérstakra áherslna á fjárfestingar í tilteknum atvinnugreinum eða landsvæðum.“ Ekki sé hægt að fallast á svo viðamiklar breytingar á samþykktum félagsins enda liggi ekki fyrir framtíðarsýn eða áherslur í þeim efnum. 

Grunnt á því góða

Segja má að grunnt hafi verið á því góða á milli Strengs hópsins og margra af öðrum stærstu hlutöfum Skeljungs. Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, gagnrýndi í janúar ummæli Jóns Ásgeirs sem fylgdu með fréttatilkynningu um niðurstöðu yfirtökutilboðs Skeljungs en 2,6% hluthafa samþykktu tilboðið. Jón Ásgeir sagði þá að niðurstaðan sýndi að hluthafar væru sammála þeirri framtíðarsýn sem Strengur hefði kynnt varðandi Skeljung. 

„Það er mjög sérkennilegt að senda inn yfirtökutilboð á verði sem flestir eru sammála um að sé allt of lágt og túlka niðurstöðuna svo þannig að þetta sé stuðningsyfirlýsing við stefnu þeirra,“ sagði Árni við Viðskiptablaðið í janúar. 

Í upphaflegu yfirtökutilboðinu bauð Strengur 8,315 krónur á hlut en greiddi svo hæst allt að 10,5 krónur á hlut þar til félagið hafði náð meirihluta í félaginu. Gengi bréfa Skeljungs stendur nú í 13,9 krónum á hlut.

Í umfjöllun Morgublaðsins um yfirtökutilboðið var sagt frá smáskærum milli hluthafa við fjáreftahópinn og var Jón Ásgeir meðal annars „sagður hafa beitt handafli til að koma í veg fyrir að Höskuldur H. Ólafsson, fyrrum bankastjóri Arion banka, kæmi inn í stjórnina,“ á aðalfundi félagsins í mars 2020. Höskuldur tilkynnti um framboð í stjórnina en dróg það til baka fyrir aðalfundinn eftir að hafa ekki hlotið náð fyrir augum tilnefningarnefndar Skeljungs.

Þá tók Gildi ekki afstöðu til tillögu stjórnar um að selja dótturfélagið P/F Magn í Færeyjum þar sem Gildi þótti skorta upplýsingar um tillöguna. Ekki væri getið til um ákveðin viðskipti eða viðræður sem hægt væri að leggja mat á. Hins vegar taldi Gildi að ef sölu yrði væri rétt að ráðstafa söluandvirðinu til hluthafa. Skeljungur hefur átt  í viðræðum við Sp/f Orkufelagið um að selja Magn, sem stóð undir 38% af veltu Skeljungs á síðasta ári, á um 10 milljarða króna.

Gildi sat einnig hjá tillögu um að Skeljungi um að stofnuð yrðu dótturfélög um annars vegar einstaklingssvið og hins vegar fyrirtækjasvið Skeljungs vegna framangreindra ástæðna.