Skráðum gjaldþrotum fyrirtækja fjölgaði um 12% síðustu 12 mánuði miðað við árið þar á undan. Alls voru 840 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu frá júlí 2015 til júní 2016, meðan þau voru 751 á 12 mánaða tímabilinu þar á undan. Þar af voru skráð gjaldþrot í júnímánuði 2016 102.

Fjölgaði gjaldþrotum mest í flokknum heild- og smásöluverslun, þar sem þeim fjölgaði um 40% eða úr 124 í 174 á síðustu 12 mánuðum miðað við 12 mánuðina þar á undan. Einnig var töluverð fjölgun í flokknum upplýsingar og fjarskipti, þar sem þeim fjölgaði úr 38 í 50, eða um 32%.

Fækkaði gjaldþrotum hlutfallslega mest í fasteignaviðskiptum, um 14% eða úr 91 í 78, en í fasteignaviðskiptum voru jafnframt mestar nýskráningar hlutafélag a á tímabilinu.