*

laugardagur, 30. maí 2020
Frjáls verslun 9. desember 2018 15:04

Gjörólíkt rekstrarumhverfi

„Það hafa átt sér stað fjölmargar breytingar í lagaumhverfi bankans sem styrkja fjármálakerfið,“ segir bankastjóri Íslandsbanka.

Sveinn Ólafur Melsted
Haraldur Guðjónsson

Birna Einarsdóttir hefur starfað sem bankastjóri Íslandsbanka síðan í október árið 2008. Hún segir að rekstrarumhverfi bankans núna sé allt annað en það var fyrir hrun. Fyrstu dagar og vikur eftir fjármálahrunið voru að sögn Birnu mjög dramatískur og erfiður tími. Hún telur framtíð Íslandsbanka vera bjarta og að breytingar sem gerðar hafa verið á grunnkerfum og tæknilegri högun bankans geri honum kleift að takast á við örar breytingar í fjármálaþjónustu með árangursríkum hætti.

Birna segir að á þessum áratug sem hún hefur verið í starfi hafi margt breyst í rekstrarumhverfi bankans.

„Það hafa átt sér stað fjölmargar breytingar í lagaumhverfi bankans sem styrkja fjármálakerfið. Við höfum tekið fullan þátt í þeirri vinnu og ég held að við höfum öll séð eftir fjármálahrunið að það var þörf á ákveðnum breytingum. Lagaumhverfið í kringum fjáramálafyrirtæki hefur breyst mikið en við erum ennþá að innleiða mikið af nýrri löggjöf sem hefur mjög mikil fjárhagsleg áhrif enda eru innleiðingarnar dýrar. Ný persónuverndarlöggjöf er dæmi um löggjöf sem er kostnaðarsöm í innleiðingu. Ég myndi því segja að rekstrarumhverfið núna og fyrir tíu árum sé gjörólíkt.

Bankaskatturinn er svo sérkafli útaf fyrir sig. Ég hef alltaf haldið því fram að þetta sé skattur sem setti bankana samkeppnislega á mjög ósanngjarnan stað. Við erum í samkeppni við til dæmis erlenda banka og lífeyrissjóði. Þegar ég nefni við erlenda kollega mína hversu hár þessi skattur er, þá halda þeir allir að ég sé að grínast enda mun hærri skattar hér á landi en í nágrannalöndunum. Þannig að það verður að verða breyting á þessu svo við sitjum öll við sama borð. Þó að það sé í farvatninu núna að lækka bankaskattinn, þá er það of langt frá í tíma að mínu mati."

Af háum stalli að falla

Birna tók við starfi bankastjórastarfinu hjá Íslandsbanka nokkrum dögum eftir að fjármálahrunið skall á. Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur Glitnis, forvera Íslandsbanka, þann 8. október 2008 á grundvelli neyðarlaganna. Viku síðar, þann 15. október 2008, var Birna ráðin sem bankastjóri Íslandsbanka og ljóst að hennar beið ærið verkefni við að endurreisa bankann. Birna segir að fyrstu dagarnir og vikurnar eftir hrun hafi verið mjög dramatískur og erfiður tími.

„Hrunið var mikið áfall fyrir alla starfsmenn bankans. Fyrir langflesta starfsmenn bankanna var þetta mjög óvæntur atburður og það var af mjög háum stalli að falla. Starfsánægjan var mikil og ánægja viðskiptavina var sömuleiðis há. En í kjölfar hrunsins voru viðskiptavinir okkar í mikilli óvissu bæði með spariféð sitt og útlánin sín. Við starfsmenn bankans vissum þessa fyrstu daga ekki hvernig við gætum hjálpað viðskiptavinum okkar í þessum mjög óvenjulegu aðstæðum og auðvitað höfðu starfsmenn einnig áhyggjur af starfinu sínu og framtíð sinni, rétt eins og aðrir Íslendingar. Það sem við gerðum var að við reyndum að horfa lengra, því það var ekki hægt að gleyma sér eingöngu í verkefnum dagsins, því þau voru öll risavaxin og erfið.

Hlutverk okkar stjórnenda var að ákveða hvernig við ætluðum að endurskipuleggja hlutina. Það þurfti því að setja þann hatt á að reyna að horfa allavega nokkrar vikur og mánuði fram í tímann og svo gátum við smátt og smátt farið að horfa aðeins lengra fram í tímann eftir því sem leið á. Við hefðum getað tekið þann pól í hæðina að vera að slökkva elda alla daga en það var nauðsynlegt að skipuleggja okkur aðeins fram í tímann og eftir á skipti þetta gífurlega miklu máli. Þetta var mikil áskorun og auðvitað settum við öll okkur það markmið að við ætluðum að koma bankanum aftur á flot og starfsmannahópurinn stóð saman sem ein heild í því. Það tókst og við náðum að skapa sterkt fyrirtæki sem við getum verið stolt af í dag. Ég er ánægð með það hvert við erum komin og sömuleiðis mjög ánægð með starfsmannahópinn minn."

Viðtalið við Birnu má í heild sinni nálgast í bókinni 300 stærstu sem Frjáls verslun var að gefa út. Hægt er að kaupa bókina hér.