*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 4. júlí 2019 13:39

Glencore vill álverið í Straumsvík

Glencore og Trimet Aluminium eru meðal fyrirtækja sem sögð eru hafa áhuga á að kaupa álver Rio Tinto í Straumsvík.

Ritstjórn
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi.
Haraldur Guðjónsson

Breski hrávörurisinn Glencore og þýski álframleiðandinn Trimet Aluminium eru meðal fyrirtækja sem sýnt hafa álveri Rio Tinto í Straumsvík áhuga að því er New York Times greinir frá. Þar segir að minnst þrjú fyrirtæki hafi lýst yfir áhuga að kaupa eignir Rio Tinto á Íslandi, í Svíþjóð og Hollandi fyrir allt að 350 milljónir dollara, um 44 milljarða króna.

Til stóð að selja álverið í Straumsvík til Norsk Hydro en fallið var frá því í september á síðasta ári. Var meðal annars borið við að langan tíma gæti tekið að fá samþykki frá evrópskum samkeppnisyfirvöldum. New York Times segja að söluferlið hafi hafist á ný seint á síðasta ári með aðstoð franska fjárfestingabankans Natixis.

Glencore er stórtækt innan álgeirans og því gætu evrópsk samkeppnisyfirvöld einnig haft eitthvað um það að kaupi Glencore eignirnar af Rio Tinto.

Rio Tinto á Íslandi var rekið með 5,5 milljarða króna tapi á síðasta ári samanborið við 49 milljón króna tap árið 2017.