Glitnir banki hf. hefur keypt 68,1% hlut í finnska félaginu FIM Group, og hefur um leið lýst vilja sínum til að kaupa alla aðra hluti og gildandi kaupréttarsamninga.

Í frétt frá Glitni segir að FIM sé leiðandi fyrirtæki á sviði eignastýringar í Finnlandi og stefnir á frekari vöxt á alþjóðlegum mörkuðum á sviði sjóðastjórnar, verðbréfamiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar fyrir jafnt einstaklinga og fagfjárfesta.

Glitnir greiðir 8 evrur á hlut sem samsvarar um 30 milljörðum króna eða um 341 milljón evra markaðsverðmæti fyrir félagið allt. Helmingur kaupverðsins er greiddur með nýjum hlutabréfum í Glitni og helmingur með lausafé.

Eftir kaupin mun Glitnir hafa 757 milljarða króna í eignaskýringu sem er aukning um 55%.

FIM er með skrifstofur á níu stöðum í Finnlandi, auk þess að reka útibú í Stokkhólmi og Moskvu. Um 284 manns starfa hjá félaginu og munu þá um 40% starfsmanna Glitnis starfa utan Íslands.

Eignir sjóða FIM nema um 3 milljörðum evra eða ríflega 267 milljörðum króna. FIM rekur 31 verðbréfasjóð, sem flestir eru metnir af greiningarfyrirtækinu Morningstar. Tekjur FIM á fyrstu níu mánuðum ársins 2006 námu 5,1 milljarði króna og hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi nam 1,1, milljarði.

Um FIM Group

FIM Group, sem stofnað var 1987, er finnskt fjárfestingafélag sem býður eignastýringu, verðbréfamiðlun og fjárfestingabankaþjónustu fyrir fagfjárfesta og einstaklinga. Auk höfuðstöðva í Helsinki rekur félagið svæðisskrifstofur í Espoo, Jyväskylä, Kuopio, Lahti, Oulu, Riihimäki, Tampere, Turku og Vaasa. FIM er einnig með starfsemi í Stokkhólmi og Moskvu. Tekjur FIM á fyrstu 9 mánuðum ársins 2006 nam 57,5 milljónum evra og hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi nam 12,8 milljónum evra. Starfsmenn FIM voru um 256 talsins í árslok 2006. FIM hefur verið skráð í OMX-kauphöllinni í Helsinki frá því í apríl 2006. Nánari upplýsingar er að finna á slóðinni www.fim.com.

Símafundur
Glitnir og FIM boða til símafundar á ensku, mánudaginn 5. febrúar, kl. 10.30 að íslenskum tíma. Á símafundinum munu Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis og Risto Perrunen, forstjóri FIM gera grein fyrir kaupunum og svara spurningum. Þátttakendur hringi eigi síðar en 10 mínútum áður en fundurinn byrjar í síma:

Bretland +44 (0)20 7162 0025
Noregur: + +47 2156 3120
Danmörk: +45 327146/7
Finnland: +358 (0)9 2313 9201
Svíþjóð +46 (0)8 5052 0110