Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra, segir að óþarfi sé að hafa gjaldeyrisforðann stærri en nauðsyn krefur. Þess vegna þurfi að setjast yfir það hvenær sé tímabært að minnka forðann og hvenær aðstæður séu þannig að slíkt sé óhætt. Hún tekur jafnframt fram að það sé óhemju mikill kostnaður og kjaraskerðing sem fylgi krónunni, enda sé hún sjálf þeirrar skoðunar að skipta eigi um gjaldmiðil hér á landi.

Hreinn vaxtakostnaður vegna gjaldeyrisforða Seðlabankans samanstendur af þeim vöxtum sem skuldir ríkisins vegna forðans bera að frádregnum þeim vaxtatekjum sem gjaldeyrisforði Seðlabankans ber. Ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hver þessi hreini vaxtakostnaður er í dag þar sem tölur um slíkt liggja ekki fyrir frá Seðlabankanum.

Það kom hins vegar fram kom í máli Davíðs Stefánssonar, hagfræðings hjá greiningardeild Arion banka, á morgunverðarfundi bankans á miðvikudaginn að áætlaður samanlagður kostnaður við forðann frá hruni nemi nærri hundrað milljörðum króna. Þar kom einnig fram að kostnaðurinn við gjaldeyrisforðann á þessu ári er áætlaður rúmlega 30 milljarðar eða sem nemur fjórðungi útgjalda ríkisins til heilbrigðismála. Á þessu ári mun því kostnaðurinn við forðann éta upp fjórðung af vöru og þjónustuviðskiptum ársins. Endurgreiðslur lána og háar vaxtagreiðslur til erlendra aðila draga því til sín viðskiptaafgang landsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.