*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 2. október 2019 09:45

Grunur um óeðlilegar greiðslur

Skoðað er hvort greiðslur frá félagi í eigu Gamma hafi verið með eðlilegum hætti.

Ritstjórn
Hluti af starfsemi Gamma er í London.
Aðsend mynd

Grunur er fyrir því að greiðslur sem runnu frá Upphafi, fasteignafélagi sem er stærsta eign fagfjárfestasjóðsins Gamma:NOVUS, til félaga sem komu að framkvæmdarverkefnunum sem Upphaf hefur unnið að hafi ekki verið með eðlilegum hætti. Nýir stjórnendur Gamma vinna nú að því að taka saman og kanna greiðslurnar. Þetta kemur fram á vef fréttablaðsins.

Meðal annars er um að ræða greiðslur til félaga sem tengjast Pétri Hannessyni sem er fyrrverandi framkvæmdarstjóri Upphafs, starfsmannaleigunnar Elju, sem er stýrt og að hluta til í eigu Arnars Haukssonar, bróðurs Gísla Haukssonar sem er einn af stofnendum Gamma.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær tapaði Upphaf 1,1 milljarði króna á síðasta ári og versnaði afkoma félagsins um rúmlega 1,4 milljarða króna. Gengi sjóðsins hafði verið 183 um mitt þetta ár en var í gær fært niður í 2.

Fram kemur að hópur sjóðsfélaga sem hafa nú tapað fjárfestingu sinni að stærstum hluta séu að kanna réttarstöðu sína um hvort refsiverð háttsemi hafi átt sér stað eður ei. En á meðal stærstu einkafjárfesta við fjármögnun NOVUS á sínum tíma var Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélags Vestmannaeyja.

Stikkorð: Gamma Novus Upphaf