Bréf Icelandair voru hástökkvari dagsins á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi með 22,22% hækkun, þó eilítið hafi dregið úr hækkun bréfanna frá því fyrr í dag, en jafnframt hafa verið miklar hækkanir á mörkuðum víða um heim .

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag sýna bráðabirgðaniðurstöður í prófunum á bóluefni við kórónuveirufaraldrinum sem leikið hefur hagkerfi heimsins grátt óvenjugóða virkni.

Fór gengi bréfanna í 1,10 krónur, sem er 10% yfir útboðsverði félagsins í hlutafjárútboði félagsins um miðjan september, í 260 milljóna króna viðskiptum.

Öll hlutabréf hækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, samhliða því að Úrvalsvísitalan hækkaði um 4,32% og fór í sögulegar hæðir, eða í 2.351,45 stig, í 4,3 milljarða heildarviðskiptum.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa fasteignafélagsins Reita, eða um 12,86%, upp í 54,40 krónur, í 386 milljóna króna viðskiptum. Þriðja mesta hækkunin var svo á bréfum Eikar fasteignafélags, eða um 9,58%, í 231 milljóna króna viðskiptum og nam lokagengi bréfanna 8,35 krónum.

Mesta veltan var á bréfum Festi, eða fyrir um 607,5 milljónir króna, og hækkaði gengi bréfa fyrirtækisins um 2,82%% í þeim, eða upp í 155 krónur.

Næst mesta veltan var á bréfum Marel, eða fyrir 546,1 milljón króna, og fór gengi bréfanna upp í 742 krónur eftir 3,78% hækkun, sem er aðeins frá hæsta lokagildi bréfanna þegar þau fóru í 755 krónur 23. október síðastliðinn.

Þriðja mesta veltan var svo með bréf Vátryggingafélags Íslands, eða fyrir 462,9 milljónir króna, og hækkuðu þau um 1,25% í þeim, upp í 13 krónur.

Krónan styrktist nema gagnvart þeirri norsku

Krónan styrktist svo gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, utan norsku krónunnar, sem styrktist gagnvart þeirri íslensku um 0,87%, og kostar hún nú 15,122 íslenskar krónur.

Veiking evrunnar nam 0,73% gagnvart krónu, og fæst hún nú á 161,76 krónur, Bandaríkjadalur veiktist um 0,23%, niður í 136,79 krónur, og breska pundið veiktist um 0,47%, niður í 179,71 krónu. Japanska jenið veiktist hins vegar mest, eða um 2,19%, og fæst það nú á a 1,2978 krónur.