Hagnaður Arion banka á árinu 2010 nam 12,6 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 12,9 milljarða á árinu 2009. Arðsemi eigin fjár var 13,4% á árinu. Eiginfjárhlutfall bankans styrktist um  5,3 prósentustig milli ára og var 19% í árslok 2010 sem er vel yfir mörkum FME. Ársreikningurinn er áritaður án fyrirvara af hálfu endurskoðenda bankans.

Þetta kemur fram í uppgjöri Arion banka sem birt er í dag.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir í tilkynningu að afkoma sé í samræmi við áætlanir. „Afkoma ársins 2010 er góð og í samræmi við áætlanir. Arðsemi eigin fjár er vel viðunandi í krefjandi umhverfi. Árið einkenndist að miklu leyti af úrvinnslu í skuldamálum heimila og fyrirtækja. Bankinn hefur náð góðum árangri í þessu mikilvæga verkefni og ætlum við að ljúka úrlausnarmálum á árinu 2011. Góður framgangur  í úrlausnarmálum felur í sér að óvissuþáttum fækkar og gæði efnahagsreiknings bankans aukast. Grunnrekstur bankans styrktist á árinu og er ég þess fullviss að bankinn er nú vel í stakk búinn til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru. Ég lít svo á að á árinu 2009 hafi verið róinn lífróður, en á árinu 2010 hafi náðst stöðugleiki í rekstur bankans og  góður árangur í úrvinnslumálum. Jafnframt var stefna bankans til framtíðar mörkuð og skipulag aðlagað. Á árinu 2011 mun úrvinnslumálum ljúka og hefðbundnari bankastarfsemi tekur við sér. Við erum bjartsýn á að á árinu 2012 muni efnahagslífið hafa náð vopnum sínum á ný."

Helstu atriði samkvæmt tilkynningu:

-       Hagnaður eftir skatta nam 12,6 ma.kr. árið 2010 samanborið við 12,9 ma.kr. árið 2009.

–      Hreinar rekstrartekjur námu alls 35,6 ma.kr. á árinu samanborið við 31,9 ma.kr. árið 2009.

–      Hreinar vaxtatekjur námu 19,8 ma.kr. samanborið við 12,2 ma.kr. árið 2009.

–      Hreinar þóknanatekjur námu 6,9 ma.kr. samanborið við 5,9 ma.kr. árið 2009.

–      Arðsemi eigin fjár var 13,4% en var 16,7% árið 2009.

–      Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 2,8% á árinu samanborið við 1,9% árið 2009.

–      Reiknaður tekjuskattur nam 3,5 ma.kr. en var 2,6 ma.kr. árið 2009. Nýr bankaskattur nam 290 milljónum á árinu.

–      Kostnaðarhlutfall var 54,2% samanborið við  47,7% árið 2009. Hækkunin skýrist einkum af einskiptiskostnaði á árinu 2010 tengdum ráðgjöf og eftirliti.

–      Neikvæð áhrif vegna lækkunar á vaxtaálagi samkvæmt úrskurði FME á skuldabréfi tengdu yfirtöku bankans á innistæðum SPRON námu 4,2 ma.kr.

–      Lausafjárhlutfall bankans var 24,8%.

–      Útlán til viðskiptavina námu 451,2 ma.kr., samanborið við 357,7 ma.kr. í árslok 2009. Aukningin er einkum tilkomin vegna nýrra útlána sem bankinn fékk í tengslum við breytt eignarhald 8. janúar 2010.

–      Innlán námu 457,9 ma.kr. samanborið við 495,5 ma.kr. í árslok 2009.

–      Heildareignir námu 812,6 ma.kr., samanborið við 757,3 ma.kr. í lok árs 2009.

–      Eigið fé bankans í árslok 2010 var 109,5 ma.kr. en nam 90,0 ma.kr. í árslok 2009.

–      Í lok árs voru 1.260 stöðugildi hjá samstæðunni, samanborið við 1.157 í árslok 2009 en starfsmönnum fjölgaði um 154 með tilkomu nýrra dótturfélaga í samstæðuna.

Þá eru listaður upp í tilkynningu helstu atburðir ársins 2010:

„Í upphafi árs breyttist eignarhald Arion banka þegar Kaupskil ehf., dótturfélag Kaupþings banka hf., eignaðist 87% hlut í bankanum á móti 13% hlut Bankasýslu ríkisins. Við það jukust heildareignir bankans um 80,2 ma.kr. og eiginfjárhlutfall hækkaði úr 13,7% í 16,4%.

Í kjölfar breytts eignarhalds var kjörin ný stjórn og tók hún til starfa 18. mars, stjórnarformaður er Monica Caneman. Þann 1. júní tók Höskuldur H. Ólafsson við starfi bankastjóra.

Grunnrekstur bankans styrktist á árinu en vaxtatekjur jukust vegna hækkunar vaxtaberandi eigna og einnig vegna lækkandi vaxtaumhverfis. Þóknanatekjur jukust einnig milli ára en innkoma Valitors sem kom inn í samstæðu bankans á fjórða ársfjórðungi hafði jákvæð áhrif.

Á árinu lauk stefnumótun bankans og var skipulag hans í kjölfarið aðlagað nýrri stefnu. Markvisst var unnið að hagræðingu í rekstri, meðal annars í útibúaneti. Í þessum mánuði mun bankinn ná mikilvægum áfanga í þeirri vinnu þegar þrjú útibú á höfuðborgarsvæðinu verða sameinuð í eitt. Útibú og afgreiðslur bankans eru nú 24 talsins og hefur fækkað um 15 frá árinu 2008.

Árið einkenndist af umfangsmiklum aðgerðum til að leysa úr málum skuldsettra fyrirtækja og einstaklinga. Arion banki hefur náð miklum árangri í þessum málaflokki. Yfir 14 þúsund einstaklingar hafa nýtt sér þau greiðsluerfiðleikaúrræði sem í boði eru. Arion banki opnaði sérhæfða ráðgjafarþjónustu fyrir einstaklinga í byrjun nóvember sem hefur mælst vel fyrir.

Góður árangur náðist á árinu í fjárhagslegri endurskipulagningu stærri fyrirtækja og hefur áherslan nú færst yfir á lítil og meðalstór fyrirtæki. Í dag hafa 750 fyrirtæki hafið fjárhagslega endurskipulagningu hjá bankanum og hefur niðurstaða þegar fengist í málum 500 þeirra. Bankinn gerir ráð fyrir að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja ljúki á árinu.

Undirbúningur var lagður að sölu kjölfestuhlutar í Högum á árinu 2010 en ferlinu lauk í febrúar 2011 með sölu á 34% hlut. Næsta skref er skráning í Kauphöll. Hekla var auglýst til sölu undir lok árs 2010 og lauk söluferlinu snemma á þessu ári. Það er forgangsverkefni bankans að koma í söluferli eignarhlutum sínum í fyrirtækjum í ótengdum rekstri.

Á árinu 2010 voru erlend lán Arion banka til fyrirtækja og lögmæti þeirra metið af sérfræðingum bankans í samstarfi við FME. Niðurstaða þeirrar vinnu var að hluti erlendra lána til fyrirtækja væri lögmætur en að í ljósi fallinna Hæstarréttardóma ríkti vafi um lögmæti annarra lána, mismikill eftir gerð lánasamninga. Það er ljóst að ef öll erlend lán bankans til fyrirtækja þar sem einhver vafi ríkir um lögmæti yrðu dæmd ólögmæt, þá yrði fjárhagslegt tjón bankans verulegt. Heildaráhrif á áhættugrunn bankans yrðu hins vegar með þeim hætti að eiginfjárhlutfall Arion banka væri áfram yfir 16%.“