*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 2. nóvember 2011 10:48

Hagnaður Atlantic Petroleum dregst lítillega saman á 3F

Rekstrarhagnaður félagsins eykst á milli ára fyrstu níu mánuði ársins en hagnaður eftir skatta dregst saman.

Gísli Freyr Valdórsson
Haraldur Guðjónsson

Rekstrarhagnaður færeyska olíufyrirtækisins Atlantic Petroleum nam um 32 milljónum danskra króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 35,5 milljónir danskra króna á sama tíma í fyrra.

Hagnaður eftir skatta nam tæpum 20,5 milljónum danskra króna, samanborið við tap upp á tæpar 8,8 milljónir danskra króna á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Atlantic Petroleum en félagið er sem kunnugt er skráð í Kauphöllina hér á landi. Á núverandi gengi nemur rekstrarhagnaðurinn um 683 milljónum íslenskra króna, en hagnaðurinn eftir skatta um 438 milljónum króna.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrstu níu mánuði ársins nemur því um 109 milljónum danskra króna, samanborið við 93,6 milljónir danskra króna í fyrra. Hagnaður eftir skatta fyrstu níu mánuði ársins nemur um 40,7 milljónum danskra króna, samanborið við hagnað upp á 72,1 milljón danskra króna á sama tíma í fyrra.

Fjárflæði frá rekstri fyrstu níu mánuði ársins nemur um 234,7 milljónum danskra króna, samanborið við 176,7 milljónir frá sama tíma í fyrra. Handbært fé frá rekstri eftir fyrstu níu mánuði ársins nam 158,4 milljónum danskra króna og jókst verulega á milli ára. Á sama tíma í fyrra nam handbært fé frá rekstri 74,3 milljónum danskra króna.

Framleiðsla í takt við væntingar

Framleiðsla fyrirtækisins fyrstu níu mánuði ársins taldi 558 þúsund tunnur, sem þýðir að meðaltali um 2 þúsund tunnur á dag það sem af er ári. Í tilkynningunni kemur fram að framleiðsla hefur stöðvast tímabundið á Ettrick svæðinu vegna ársbundins viðhalds. Þá er framleiðsla á Chestnut svæðinu undir væntingum en búist er við aukinni framleiðslu á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að hægt verði að hefja olíuframleiðslu á Blackbird svæðinu (sem reyndar er hluti af Ettrick svæðinu) fyrir áramót.

Óbreytt afkomuspá

Afkomuspá Atlantic Petroleum fyrir árið í heild er óbreytt og búist er við því að rekstrarhagnaður félagsins verði á bilinu 90-150 milljónir danskra króna. Þá munu fjárfestingar í olíuleit nema um 50 milljónum danskra króna á árinu og fjárfestingar í olíuvinnslu nema um 135 milljónum danskra króna.

Þá gerir félagið jafnframt ráð fyrir því að lækka skuldir um 50 milljónir danskra króna á árinu.