Hagnaður Daimler AG nam 1,515 miljörðum evra á 2 ársfjórðungi, eða um 230 milljörðum króna. Er þetta nokkuð lakari afkoma en á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam 1,7 milljarði evra.

Þróunarkostnaður á nýjum Mercedes Benz A og B bíl vegur þungt í uppgjörinu. Fyrsti A bíllinn, sem hefur verið endurhannaður frá grunni, kom af færibandinu í síðustu viku og gera forsvarsmenn Daimler sér vonir um góða sölu á honum.

Greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir eilítið lakari afkomu og afkomuviðvörun fyrir 3. ársfjórðung en Dieter Zetsche forstjóri fyrirtækisins segir slíkt tal vitleysu. Hlutabréf Daimler hafa hækkað um 4,7% í kauphöllinni í Frankfurt í morgun.

8% söluaukning milli ára

Daimler seldi 8% fleiri ökutæki á 2. ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra eða 570.300 ökutæki. Mest aukning var í sölu hjá vörubílahluta Daimler eða um 22%. Sala á Mercedes Benz fólksbílum jókst um 4%

Óvissa á öllum mörkuðum

Líkt og aðrir evrópskir bílaframleiðendur hafa gert við birtingu uppgjöra sinna í ár, vara stjórnendur Daimler við því að ástandið á öllum mörkuðum fyrirtæksisins sé óstöðugt.

Þrátt fyrir það gerir Daimler ráð fyrir selja fleiri ökutæki í ár en í fyrra, eða yfir 2,1 milljón.