Hagnaður Marels í fyrra nam 11,7 milljónum evra, andvirði um 1,8 milljarða króna, en var 20,6 milljónir evra árið 2013. Í tilkynningu segir að hagnaður sé litaður af einskiptiskostnaði í tengslum við hagræðingu í rekstri á árinu 2014. Tekjur ársins 2014 námu 712,6 milljónum evra og hækkuðu um 7,7% frá fyrra ári. EBITDA var 66,7 milljónir evra í fyrra sem er 9,4% of tekjum, en árið 2013 var EBITDA fyrirtækisins 69,4 milljónir evra.

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 102,2 milljónum evra í fyrra, en var 80,3 milljónir árið 2013. Nettó vaxtaberandi skuldir í lok ársins námu lækkuðu úr 217,1 milljón evra í árslok 2013 í 174,3 milljónir evra um síðustu áramót.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 3,0 milljónum evra í fyrra, en var 3,7 milljónir á sama tímabili 2013. EBITDA jókst úr 14,1 milljón evra á fjórða ársfjórðungi 2013 í 21 milljón evra á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marel, að áætlun fyrirtækisins um einfaldara og skilvirkara Marel, nái til tveggja ára og nú hefjist síðari hluti þeirrar vegferðar. „Hagræðing rekstrar er á áætlun og samhliða erum við einnig að fjárfesta í vexti til framtíðar í gegnum nýsköpun og fjárfestingu í innviðum sem munu styðja við félagið til framtíðar. Við erum á réttri leið eins og bætt rekstarafkoma á síðari hluta ársins 2014 sýnir og við erum bjartsýn í upphafi árs 2015. Staða pantana er góð, markviss skref til lækkunar á kostnaðargrunni hafa verið tekin og við stefnum á góðan innri vöxt og aukinn hagnað á árinu 2015 samanborið við fyrra ár.“