Hagnaður kín­verska raf­bíla­fram­leiðandans BYD, sem tók í fyrra fram úr Tesla sem stærsti raf­bíla­fram­leiðandi heims á fjórða ársfjórðungi, jókst tölu­vert í lok árs sam­kvæmt ný­birtum árs­reikningi.

The Wall Street Journal greinir frá því að hagnaður BYD á síðustu þremur mánuðum ársins jókst um 19% og nam 1,2 milljörðum Banda­ríkja­dala.

Tekjur jukust um 15% á sama tíma­bili í saman­burði við árið á undan. Fjöldi seldra bíla jókst um 38% en sem fyrr segir seldi BYD fleiri raf­bíla en Tesla á fjórða árs­fjórðungi í fyrra.

Bílaframleiðandinn seldi 526 þúsund hreina raf­bíla á tímabilinu. Tesla seldi til samanburðar 485 þúsund bíla.

Kín­verski bíla­fram­leiðandinn sem er þekktur fyrir að fram­leiða ó­dýra fjöl­skyldu­væna raf­bíla er nú orðinn stór­huga og hyggst BYD ætla hasla sér völl á lúxus­bíla­markaði.

BYD hyggst fram­leiða ofur­bíl sem líkt er við Lam­borg­hini með 150 þúsund dala verð­miða, eða sem nemur um 26 milljónum króna.

Auk þess verður jeppi sem sagður er geta snúið sér í 360 gráður á staðnum og flotið á vatni hluti af nýju vöru­línunni.