Að sögn Bjarna Ármanssonar, forstjóra Glitnis, er sala bankans á hlut sínum í Sjóvá-Almennum, að hluta til viðbrögð við umræðu um krosseignarhald á Íslandi. Hagnaður bankans af kaupunum á Sjóvá, að teknu tilliti til gengishagnaðar og arðgreiðsla er 11,5 milljarður króna.

Á fundi með fjárfestum í morgun sagði Bjarni að markmiðið með kaupunum á Sjóvá á sínum tíma hefði verið standa sameiginlega að sölu afurða og standa að samstarfi um fjárfestingar. Hann sagði að þó að salan hefði átt sér stað núna þá væri slíkt samstarf áfram mögulegt.

Glitnir eignaðist Sjóvá í október 2004 og greiddi 19,5 milljarða króna fyrir félagið. Þriðjungshlutur nú er seldur á 9,5 milljarða króna sem felur í sér að Sjóvá er metið á 28,5 milljarða króna. Gengishagnaður að teknum tilliti til arðgreiðsla nemur 11,5 milljarði króna.

Bjarni sagði að salan á hlutnum væri drifin áfram af vilja þeirra til að einfalda ímynd félagsins og að hluta til að koma til móts við gagnrýni á krosseignarhald í íslenskum fyrirtækjum. Bjarni sagði að bankinn hefði verið í samhliða fjárfestingum með stærstu hluthöfum bankans. Það yrði ekki lengur. Bjarni sagði að þó þær fjárfestingar hefðu haft eðlilegar forsendur þá yrðu menn að laga sig að því sem erlendir aðilar skyldu. "Við verðum að hreinsa ímyndina," sagði Bjarni.