Már Wolfgang Mixa fjármálafræðingur segir bæði kosti og galla við að festa útlánavexti við stýrivexti líkt og Birta lífeyrissjóður gerir með breytilega óverðtryggða vexti sjóðfélagalána sinna.

Stýrivextir – vextir 7 daga bundinna innlána hjá Seðlabankanum – séu eðli máls samkvæmt skammtímavextir, á meðan fasteignalán séu langtímaskuldbindingar. „Þú finnur ekki mikið styttra viðmið.“

Ókosturinn fyrir sjóðinn sé að með þessu sé gert ráð fyrir óbreyttri lögun vaxtarófsins; óbreyttu sambandi skammtíma- og langtímavaxta. „Ég myndi ekki vilja hafa lífeyrinn minn þarna, að því leyti að aðrir sjóðfélagar eru að fá hagstæðari lán en þeim ætti raunverulega að bjóðast í þessu vaxtaumhverfi. Að því sögðu eru uppi afar sérstakar aðstæður og mörg fyrirtæki gera sitt besta til að koma til móts við sína viðskiptavini.“

Að auki megi telja fyrirkomulaginu það til tekna að það auki bein áhrif stýrivaxta. „Stýrivextir bíta á þessi lán. Ef þeir lækka eins og núna þá leiðir það strax og óskert til lægri greiðslubyrði lánþega, og ef þeir hækka þá er á móti bara verið að taka pening beint úr vasa þeirra. Með þessu er vegið á móti einum af ókostum verðtryggðra lána í núverandi mynd, sem er að stýrivextir virka illa á þau,“ segir Már.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .