*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 17. janúar 2021 16:20

Hampiðjan stofnar nýtt dótturfélag

Hampiðjan Offshore, áður deild innan móðurfélagsins, mun selja búnað til olíuleitar og uppsetningu vindmylla.

Júlíus Þór Halldórsson
Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar.
Eva Björk Ægisdóttir

Ekkert lát er á fjölgun fyrirtækja innan Hampiðjusamstæðunnar. Þessa dagana stendur yfir vinna við stofnun nýs fyrirtækis, Hampiðjan Offshore, sem hingað til hefur verið deild innan móðurfélagsins sem selur meðal annars búnað til olíuiðnaðarins, til notkunar við olíuleit og á olíuborpöllum.

„Við höfum verið að selja olíuleitarskipum dráttartóg síðan 1994, sem þeir nota til að draga eftir sér hljóðnema, framkalla sprengihljóð, og leita þannig að olíu milli jarðlaga í botninum. Eftir því sem skipin stækkuðu og hljóðnemalengjurnar urðu lengri varð stálvírinn of þungur, og þeir fóru að þurfa svokallað ofurtóg, sem við höfum selt þeim síðan,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri.

Vindmyllur taka við af olíuvinnslu
Hampiðjan hefur síðan þá verið að nýta sér tengsl og þekkingu sína á þessum markaði, og stækkað jafnt og þétt við sig í slíkri þjónustu. Þegar olíuverðið féll mikið sumarið 2014 dróst sá markaður verulega saman. Á móti hefur hins vegar komið mikil aukning í uppsetningu vindmylla úti á hafi, sem búnaður Hampiðjunnar hefur einnig reynst vel við.

„Þar höfum við verið að selja töluvert mikið af lyftistroffum. Þegar verið er að setja upp undirstöður vindmyllanna skiptir mjög miklu máli að vera fljótur með verkið, og það er mun fljótlegra og auðveldara að vinna með ofurstroffum, úr léttum þráðum úr okkar ofurefni, heldur en stífum og þungum stálvírum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.