Aðeins voru 63 hárgreiðslustofur, eða 49%, sem höfðu allar verðmerkingar sínar í lagi í nýlegri könnun sem Neytendastofa gerði á ástandi verðmerkinga á hársnyrtistofum á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu en stofnunin fór á 128 stofur og kannað hvort verðlisti yfir helstu þjónustuliði væri til staðar og hvort sérvara væri merkt samkvæmt reglum um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar.

Fram kemur að á þeim hársnyrtistofum sem áður voru nefndar var sérvara merkt með verði og viðskiptavinir höfðu greiðan aðgang að verðskrá yfir þá þjónustu sem hársnyrtistofan býður upp, það er gátu séð hvað barnaklipping kostar eða hvað kostar að setja lit í sítt eða stutt hár áður en þjónustan fór fram.

Þá kemur fram að hjá 44 hársnyrtistofum var verðskrá ekki sýnileg og á fimm þeirra var engin verðskrá til staðar á stofunni. Það eru Hársnyrtistofan Amadeus, Rakarastofa Jóns Þórarinssonar, Hárgreiðslustofan Aflagranda, Greifinn og Hárgreiðslustofan Zoo.is.

Það var því í 34% tilvika sem vantaði upplýsingar um verð á þeirri þjónustu sem í boði er fyrir neytendur.

Margar hárgreiðslustofur með sérvörur ómerktar

Þá kemur einnig fram að af hársnyrtistofnunum 128 eru 123 með ýmsar sérvörur til sölu. 21 stofa var með allar sérvörur óverðmerktar, á fimm stofum var ástand verðmerkinga ábótavant en á 97 stofum voru merkingarnar í lagi. Því voru það 27% af hársnyrtistofum sem voru ekki með verðmerkingar á sérvöru í lagi og þar af 17% með allt ómerkt.

Sjá nánar vef Neytendastofu.