*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 19. janúar 2020 10:08

Heildaraflinn dróst saman um fimmtung

Á síðasta ári munaði verulega um enga loðnu og samdrátt í öðrum uppsjávarafla. Aukning sjávarafla í desember.

Ritstjórn
Miklu munaði um að engin loðna veiddist á síðasta ári.

Á síðasta ári nam heildarafli íslenskra skipa 1.048 þúsund tonnum, sem er nærri fimmtungi, eða 211 þúsund tonnum minna en landað var árið 2018. Það gerir 16,8% lækkun milli ára að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands.

Samdráttinn milli ára má rekja til þess að engin loðna veiddist á síðasta ári en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um gætu áhrifin af því að loðnubrestur yrði annað árið í röð orðið mikil fyrir landið, sérstaklega byggðalög eins og Vestmannaeyjar.

Einnig var samdráttur í öðrum uppsjávarafla eins og kolmuna og makríl, svo samdrátturinn var 28% milli ára, eða úr 739 þúsund tonnum í 535 þúsund tonn.

Botnfiskafli stóð í stað milli ára, en af einstaka tegundum má nefna að ýsuafli jókst um 19%. Flatfiskafli nam rúmum 22 þúsund tonnum árið 2019 og dróst saman um 18% samanborið við árið 2018. Afli skel- og krabbaýra var rúm 10 þúsund tonn á síðasta ári og dróst saman um 19% frá fyrra ári.

Í desember 2019 var fiskaflinn rúm 63 þúsund tonn sem er 12% aukning miðað við desember 2018. Botnfiskafli var tæp 29 þúsund tonn og jókst um 6%. Uppsjávarafli nam 33,6 þúsund tonnum sem er 19% aukning samanborið við desember 2018. Aflinn í desember, metinn á föstu verði, var 3% meiri en í desember 2018.