Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu rétt rúmum 3,8 milljörðum króna í september, en þar af voru tæpir 1,9 milljarðar króna vegna almennra lána. Samtals námu útlán á fyrstu níu mánuðum ársins 2010 rúmum 20 milljörðum króna samanborið við rúmlega 24 milljarða á sama tímabili ársins 2009. Meðalútlán almennra lána voru um 10,2 milljónir króna í september en um 10,1 milljón í ágúst síðastliðnum.

Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa sveiflaðist talsvert í september. Ávöxtunarkrafan lækkaði í öllum flokkum bréfanna á fyrri hluta mánaðarins en hækkaði verulega á síðari hluta hans að því er fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

„Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði stýrivexti og innlánsvexti um 0,75% á vaxtaákvörðunardegi sínum 22. september s.l. og hækkaði ávöxtunarkrafa íbúðabréfa um 44-84 punkta eftir flokkum í kjölfarið. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkaði í HFF14 um 14 punkta í september en hækkaði um 26-40 punkta í öðrum flokkum. Frá áramótum hefur ávöxtunarkrafan lækkað um 50 til 76 punkta eftir flokkum," segir í skýrslunni.

Velta eykst milli mánaða

Heildarvelta íbúðabréfa nam um 199 milljörðum króna í september samanborið við um 65 milljarða í ágúst. Það sem af er ári hefur heildarvelta íbúðabréfa numið rúmum 638 milljörðum króna miðað við um 713 milljarða á sama tímabili í fyrra. Íbúðalánasjóður hefur, samkvæmt lögum um húsnæðismál nr. 44/1998, með síðari breytingum, heimild til aukaútdráttar húsbréfa. Á þessum grundvelli lét sjóðurinn fara fram aukaútdrátt í september að fjárhæð um 3,6 milljarðar króna sem koma til greiðslu að mestu í nóvember en einnig í desember 2010.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu tæpum 7 milljörðum króna í september, en þær voru að mestu vegna afborgana íbúðabréfa. Uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs í september námu rúmum 2,6 milljörðum króna.