meniga
meniga
Meniga hefur valið CREALOGIX í Sviss til þess að annast endursölu á lausnum félagsins til svissneskra banka. Meniga er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki með starfsemi í Stokkhólmi og Reykjavík. Frá árinu 2008 hefur fyrirtækið þróað heimilisfjármálalausnir fyrir banka og fjármálafyrirtæki sem eru með þeim bestu í heiminum í dag hvort sem horft er til virkni, viðmóts, sveigjanleika eða öryggis af því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Meniga og CREALOGIX munu í sameiningu bjóða svissneskum viðskiptabönkum leiðandi heimilisfjármálalausnir Meniga. CREALOGIX er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki Sviss og í fremstu röð í þróun og sölu netbankalausna. Ellefu af tuttugu stærstu bönkum Sviss bjóða upp á netbanka frá CREALOGIX. Samstarf Meniga og CREALOGIX felur í sér þróun, rekstur og sölu heimilisfjármálalausnar Meniga í Sviss og aðlögun hennar að svissneskum markaði.

Gjörbreytir samskiptum

„Heimilisfjármálalausnir á borð við Meniga eru næsta kynslóð netbankaþjónustu. Þær munu gjörbreyta samskiptum viðskiptavina og banka með sambærilegum hætti og netbankar gerðu fyrir 15 árum. Ég er sannfærður um að viðskiptabankar geti ekki boðið viðskiptavinum sínum hagkvæmari og skilvirkari lausnir til að stýra fjármálum sínum og innleiðing slíkra lausna verði veigamikill þáttur í langtímastefnu allra banka sem á annað borð ætla sér mæta þörfum viðskiptavina sinna. Verðlaunalausn Meniga er í fremstu röð í heiminum í dag og við hlökkum til að bjóða viðskiptavinum okkar upp á heimilisfjármálahugbúnað sem sannarlega mun hjálpa þeim að þjóna viðskiptavinum sínum betur,“ segir Dr. Richard Dratva, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri stefnumörkunar hjá CREALOGIX Group.

Áhugi í Evrópu

„Mikill áhugi er á heimilisfjármálaveflausnum í Evrópu um þessar mundir en fram til þessa hafa engar slíkar lausnir staðið til boða í Sviss. Samstarfið við CREALOGIX gerir Meniga kleift að koma heimilisfjármálahugbúnaði sínum hratt á svissneskan markað enda er CREALOGIX þekkt fyrir yfirburðaþekkingu og gríðarlega góðan árangur í þróun og sölu netbankalausna til viðskiptabanka þar í landi,“ segir Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga.

Hér má sjá upphafsíðu Meninga. Stækka má myndina með því að smella á hana.

Meniga
Meniga