„Hið opinbera er yfir og allt um kring á raforkumarkaði," sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar sem hófst klukkan tvö í dag.

Bjarni setti þetta í samhengi við almenn umsvif opinbera aðila í efnahagslífinu. „Við höfum líklega aldrei áður séð jafn hátt hlutfall atvinnustarfseminnar í landinu ýmist í beinni opinberu eigu eða óbeinni eigu almennings í gegnum lífeyrissjóði,“ sagði Bjarni.

Lífeyrissjóðirnir eiga nú meirihluta allra skráðra hlutabréfa hér á landi og um þriðjung allra fjármuna á Íslandi. Bjarni vísaði á skýrslu starfshóps um framtíðarhlutverk lífeyriskerfisins frá því í janúar. Þar voru viðraðar áhyggjur af því að einhæft eignarhald geti haft í för með sér að það dragi úr samkeppninni, framboð á vöru eða þjónustu minnki, verð hækki og hvati til nýsköpunar minnki.

Bjarni velti upp hvort hið sömu sjónarmið gætu átt við á raforkumarkaði. „Hið opinbera fer með leyfisveitingar og reglusetningavaldið, ríkið og sveitarfélög á nær alfarið framleiðslufyrirtækin og flutninga og dreifikerfið sé í opinberi eigu,“ sagði Barni.

Bjarni sagði að breytingar á lögum sem rekja megi aftur til ársins 2003 til að auka samkeppni á raforkusölumarkaði hafi litui skilað. Það hafi ekki verið fyrr enn á síðasta ári sem nýr aðili hafi bæst á þennan markað. „Getur verið að þetta fyrirkomulag bjóði upp á svipaða hættu og bent var á hvað varðar hið umfangsmikla eignarhald lífeyrissjóðanna á atvinnustarfsemi í landinu,“ spurði Bjarni.

Þá velti Bjarni upp hvort raforkufyrirtækin þurfi að sinna smásölu á raforkumarkaði og spurði hver hafi þá verið tilgangur laganna frá árinu 2003. Bjarni nefndi að verðgólf Landsvirkjunar á raforkuverði hefði óhjákvæmilega áhrif á verðmyndun á markaði. Þar velti Bjarni upp hvort ekki mætti auka gegnsæi við hvernig slíkt gólf væri myndað.