Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, gagnrýnir harðlega ríkisvæðingu TM í færslu á Facebook.

Hún gefur lítið fyrir málflutning Lilju Bjakar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, sem sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í dag að Landsbankinn sé ekki ríkisfyrirtæki, heldur almenningshlutafélag í eigu ríkisins sem starfi á samkeppnismarkaði.

„Þótt bankastjóri Landsbankans telji sig ekki starfa hjá „ríkisfyrirtæki” er staðreynd málsins sú að ríkið á um 98% hlut í bankanum. Landsbankinn er því auðvitað ekkert annað en ríkisfyrirtæki,“ skrifar Hildur.

„Fjölmörg einkarekin tryggingafélög eru í landinu og erfitt að sjá að brýn nauðsyn sé á sérstakri Tryggingamiðstöð ríkisins. Ekki frekar en þörf er á ríkisfjölmiðli, ríkissprúttsala eða malbikunarstöð í eigu borgarinnar.“

Tilkynnt var í gær um að stjórn Kviku banka hefði ákveðið að taka tilboði Landsbankans í TM Tryggingar. Kaupverð samkvæmt tilboðinu er 28,6 milljarðar króna.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra lýsti því í gærkvöldi að kaup Landsbankans á TM verði að óbreyttu ekki að veruleika með sínu samþykki, nema söluferli á Landsbankanum hefjist samhliða. Jafnframt sagðist hún hafa kallað eftir skýringum frá Bankasýslu ríkisins.

Hildur kallar eftir því að hið opinbera minnki afskipti sín af einkarekstri fremur en að bæta í. Þórdís Kolbrún eigi allan sinn stuðning í þessu máli.

„Við verðum að vinda ofan af vitleysunni,“ segir Hildur í lok færslunnar.