Fjárfestingafélagið Snæból í eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur hagnaðist um 4,45 milljarða króna árið 2020 miðað við 1,4 milljarða króna hagnað árið 2019.

Vaxtatekjur námu 370 milljónum króna, afkoma fjárfestingaeigna nam 2,1 milljarði króna og hagnaður vegna hlutdeildar- og dótturfélaga nam tæplega 2,1 milljarði króna.

Félagið er meðal annars nærst stærsti hluthafi Sjóvá með tæplega 10% hlut og á 3% hlut í Eyri Invest, stærsta hluthafa Marel. Þá var félagið stór hluthafi í fasteignafélaginu Reginn sem og á meðal stærstu hluthafa Heimavalla sem norska leigufélagið Heimstaden keypti á síðasta ári. Þá tóku þau meðal annars þátt í hlutafjárútboði Icelandair í haust og hlutafjáraukningu Reykjavik Creamery, íslensks mjólkurbús í Pennsylvaníu.

Hjónin hafa einnig verið stórtæk í byggingaframkvæmdum. Morgunblaðið sagði frá því árið 2014 að þau kæmu að byggingu 8.400 íbúða á höfuðborgarsvæðinu og þá eru þau meðal hluthafa í nýju Marriott Edition hóteli sem nú rís við hlið Hörpu. Snæból á stóran hlut í Klasa sem stendur meðal annars að Smárabyggð í Kópavogi og nýrri byggð við Elliðaárvog í Reykjavík.

Eignir Snæbóls voru metnar á 17,1 milljarða króna um áramótin, eigið fé var metið á 15,9 milljarða króna og víkjandi lán frá eigendum á 1,1 milljarð króna en félagið er að öðru leyti svo til skuldlaust. Skráð hlutabréf félagsins voru metin á 5,1 milljarða króna um síðustu áramót, óskráð hlutabréf félagsins voru metin á 6,2 milljarða króna en hlutdeildar- og dótturfélög á 3,4 milljarða króna.