Mikill órói hefur myndast meðal nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar, sem telja kvótafrumvörpin svokölluðu ganga of nærri stærstum hluta útgerðarfyrirtækjanna. Þá telur hluti þingmanna Samfylkingarinnar að með því að draga frumvarpið um stjórn fiskveiða til baka og semja um hækkun á veiðigjaldi við útgerðina megi ná fram sátt í málinu og einbeita sér að öðrum málum.

Um þetta er fjallað í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu.

Veiðigjaldið nú nemur um 4,5 milljörðum króna, sem jafngildir því að útgerðin greiði um 9,5 krónur fyrir hvert þorskígildiskíló. Samkvæmt þeim frumvörpum sem nú liggja fyrir stendur til að lækka gjaldið niður í 8 krónur á hvert kíló, en leggja síðan á viðbótarveiðigjald sem miðast við hagnað útgerðanna.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur sú hugmynd verið viðruð að tvöfalda þess í stað veiðigjaldið sjálft, þ.e. upp í 19 kr./kg og láta annað bíða í bili. Þannig megi m.a. klára kvótamálin í meiri sátt áður en þingið fer í sumarfrí. Þessi hugmynd er að mörgu leyti í takt við fjárlagafrumvarp þessa árs sem gerir ráð fyrir hækkun veiðigjalds upp á 4,5 milljarða króna til viðbótar, þannig að veiðigjaldið verði í heild um 9 milljarðar króna. Það hefur enn ekki gengið eftir en líkast til má ná þeim fjárhæðum inn í ríkissjóð með fyrrnefndri aðferð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.