Auglýsingastofan H:N Markaðssamskipti hefur tekið upp gamla nafnið sitt Hér & nú. Auglýsingastofan var stofnuð þann 1. apríl árið 1990 og var rekin undir nafninu Hér & nú allt til ársins 2003 þegar nafnið H:N Markaðssamskipti var tekið upp. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Hér & nú er ein elsta auglýsingastofa landsins og fagnar 32 ára afmæli sínu í ár. Í tilefni þess ákváðum við að fara í endurmörkun á stofunni sjálfri og dusta rykið af upphaflega nafninu,“ segir Katla Hrund Karlsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Hér & nú.

„Stofan hefur frá stofnun verið rekin á sömu kennitölunni en ástæðan fyrir nafnabreytingunni var fyrst og fremst ruglingur sem varð þegar glans- og slúðurtímarit með sama nafni hóf göngu sína. Það er nú orðið töluvert síðan að útgáfu tímaritsins lauk og ætlum við að endurheimta nafnið okkar á ný,“ segir Katla Hrund.

Hjá Hér & nú starfa á þriðja tug starfsmanna, bæði í höfuðstöðvunum í Bankastrætinu og útibúi í Brighton á Englandi. Fram kemur að starfsteymi stofunnar hafi aldrei verið stærra og viðskiptavinirnir aldrei verið fleiri.