Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans á Austurbakka Reykjavíkurhafnar sem eru nú í burðarliðnum stefna nú í að verða um 1,8 milljarði króna dýrari en áður var talið, meðal annars vegna ákvörðunar um að það uppfylli umhverifsstaðla.

Þar með verður heildarkostnaðurinn um 11,8 milljarðar króna að því er fram kemur í nýrri ársskýrslu Landsbankans. Áður hafði verið stefnt að því að bankinn kostaði 9 milljarða . Í ársskýrslunni kemur jafnframt fram að bankinn áætlar sparnað af flutningi í húsið, jafnvel þó það sé allt of stórt fyrir starfsemi bankans og hann hyggist leigja út 40% af hinu nýja húsi.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hagnaðist bankinn um ríflega 18 milljarða en arðsemi eigin fjár bankans var undir markmiðum. Í ársskýrslunni kemur fram að þegar búið var að leggja mat á tillögur sem bárust um hönnun hússins var ljóst að byggingin yrði kostnaðarsamari en upphaflega var gert ráð fyrir.

„Við bættist kostnaður vegna ákvörðunar um að húsið yrði umhverfisvottað samkvæmt BREEAM-umhverfisstaðlinum. Samkvæmt þeirri kostnaðaráætlun sem bankaráð hefur samþykkt er nú reiknað með að heildarkostnaður við bygginguna verði 11,8 milljarðar króna.

Þrátt fyrir að kostnaður verði því um 1,8 milljörðum króna hærri en upphaflega var gert ráð fyrir er ljóst að flutningur í húsið mun hafa í för með sér nauðsynlega hagræðingu,“ segir í skýrslunni, en þar er gert ráð fyrir hálfs milljarða króna sparnaði vegna flutningsins.

„Bankinn hyggst selja eða leigja frá sér um 40% hússins og er kostnaður við þann hluta sem bankinn mun nýta áætlaður um 7,5 milljarðar króna.“