Heimsmarkaðsverð á hráefnum heldur áfram að hækka. Í Hálffimm fréttum Kaupþings segir að verð á hveiti og hrísgrjónum hafi aldrei mælst hærra, verð á soyabaunum hefur ekki verið hærra í 34 ár og verð á korni hefur sjaldan verið jafn hátt.

Ástæður hækkananna má einkum rekja til vaxandi eftirspurnar í Kína og Indlandi þar sem hagkerfin eru drifin áfram af neyslu vaxandi miðstéttar. Jafnframt hefur framleiðsla á lífrænu eldsneyti aukið mjög eftirspurn eftir korni. Í ofanálag hafa uppskerubrestir í Kanada, Bretlandi, Ástralíu og víðar leitt til þess að framleiðsla þessa árs hefur og mun verða mun minni en gert hafði verið ráð fyrir, segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.

Þar segir einnig að þessar hráefnisverðshækkanir samhliða hækkun olíuverðs hafa gert það að verkum að verðbólga í næstum öllum ríkjum heimsins er að aukast. Aukin verðbólga setur síðan seðlabanka heimsins í erfiða stöðu þar sem hún sem dregur úr möguleikum þeirra til þess að lækka vexti til þess að auka lausafjármagn í umferð og koma fjármálamörkuðum heimsins á réttan kjöl.