„Það væri gaman að enda starfsferilinn á RÚV. Ég sá þetta starf auglýst og ákvað að sækja um,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Hrafn Gunnlaugsson. Hann er einn 39 umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra.

Hrafn segir í samtali við VB.is vera fullfær um að setjast í stól útvarpsstjóra ef ráðið verði á faglegum nótum. Hann hafi unnið í útvarpinu síðan hann var krakki, sá m.a. um Útvarp Matthildi með Davíð Oddssyni, síðar forsætisráðherra og ritstjóra Morgunblaðsins, og rithöfundinum Þórarni Eldjárn, var fréttaritari Morgunblaðsins í Svíþjóð, framkvæmdastjóri Listahátíðar og formaður, vann hjá sænska ríkissjónvarpinu, leiklistarráðunautur Sjónvarps árin 1977 til 1982, dagskrárstjóri þar árið 1987 til 1989, framkvæmdastjóri Sjónvarps 1993 til 1994 og staðgengill útvarpsstjóra. Þá eru ótaldar þær kvikmyndir sem eftir hann liggja. Þar á meðal er Hrafninn flýgur.

Sjötugur útvarpsstjóri með bleyjubarn?

Hrafn er fæddur árið 1948, fagnar 66 ára afmæli 17. júní næstkomandi og vafalítið einn elsti umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra. Ráðið er í stöðuna til fimm ára og yrði Hrafn rúmlega sjötugur þegar ráðningarsamningurinn rennur út. Hrafn segir aldurinn enga fyrirstöðu og vísar til þess að hann hafi nýverið eignast son.

„Ég held að ég ætti tiltölulega auðvelt með að sinna starfinu. Ef ég er fær um að eignast bleyjubarn þá er ég fær um svona starf,“ segir Hrafn. Í raun telur hann, reyndar í gamni, aldurinn geta verið sér til tekna enda oftast ekki mikil læti í kringum fólk á hans aldri.